Ragnheiður Sveinþórsdóttir

Vissir þú að Vestmannaeyjabær er stærsti ferðaþjónustuaðilinn í sveitarfélaginu okkar? Vestmannaeyjabær ferjar 350 þúsund farþega á milli lands og eyja, rekur Eldheima, Sagnheima og sundlaugina sem taka á móti fleira ferðafólki en nokkur annar ferðaþjónustuaðili hérna í Eyjum.

Við höfum fjölbreytt úrval veitingastaða sem hafa mikinn metnað, fjölbreytta afþreyingu og 7 ferðir á dag með ferjunni okkar. Þetta er hægt af því að við erum tilbúin að deila samfélaginu okkar með fólki sem finnst við nógu einstök til að leggja leið sína hingað.

Öflug ferðaþjónusta skapar grundvöll fyrir lífsgæði okkar heimamanna á jafn afskekktum stað og Vestmannaeyjar eru þegar við horfum á heimsmyndina. Ég efast um að það finnist jafn mikil afþreying og upplifun á jafn fáum ferkílómetrum, annars staðar, eins og er hérna hjá okkur.

Bærinn þarf að tryggja aðgengi og styðja við fyrirtækin í Eyjum með lausnum þegar t.d. kemur að aðstöðu, hvort sem það er við bryggjuna eða uppi í Stórhöfða. Það er ekki nóg að hafa söfnin og sundlaugina, söluskúra á Vigtartorginu og göngustíga í miðbæinn. Það þarf að hlúa að fjölbreytninni og ýta undir nýsköpun sem mun bæta samfélagið okkar.

Ég hóf störf á nýjum vettvangi fyrir um ári síðan og það var margt sem kom mér á óvart þegar ég fór að kynnast ferðaþjónustunni. Ég gerði mér grein fyrir áhrifum ferðamanna á samfélagið og hvað við íbúarnir græðum á öflugu starfi. Það kom mér líka á óvart hve ómarkviss samvinnan er; mín skoðun er að það vantar metnaðarfulla áætlun og stuðning við nýsköpun í ferðaþjónustu, sjálfbærnimarkmið og miðlun til að skara fram úr, verða best.

Við verðum alltaf stoltur sjávarútvegsbær en við þurfum líka að fagna fjölbreyttri atvinnustarfsemi og horfa á heildarmyndina, auka samvinnu og líta á ferðaþjónustuna sem hluta af framtíðinni fyrir okkur öll.

Vestmannaeyjar – verðum best.
Ragnheiður Sveinþórsdóttir
Sækist eftir 2-4 sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum