Árið 2010 var Mýflugi falið að sjá um sjúkraflug við Vestmannaeyjar frá Akureyri sem er í 520 km fjarlægð en á þeim tíma var starfandi skurðstofa með svæfingarlækni og skurðlækni.

Þremur árum síðar var skurðstofu illu heilli lokað og bráðaviðbragð því skert verulega án þess að til kæmi efling sjúkraflutninga með bættum viðbragðstíma fyrir íbúa/gesti samfélagsins. Það ár kom út skýrsla ríkisendurskoðunar um viðbragðstíma sjúkraflugs og þróun þess. Þar kom skýrt fram að viðbragðstími vegna sjúkraflutninga til Vestmannaeyja hafði aukist í kjölfar þess að staðsetning miðstöðvar sjúkraflugs var flutt til Akureyrar. Samkvæmt skýrslunni jókst viðbragðstími að meðaltali um 24 mínútur fyrir Vestmannaeyjar og stendur þar svart á hvítu „að ljóst er að þessi munur getur í einhverjum tilvikum skipt sköpum.“

Vestmannaeyjar eru fjölmennasti þéttbýliskjarni landsins þar sem ekki er möguleiki á sérhæfðu bráðaviðbragði sérþjálfaðra lækna og bráðatækna innan 45-60 mínútna.

Sérfræðingar lýsa áhyggjum af stöðu sjúkraflutninga á landsbyggðinni
Í nýútkominni fræðigrein í Læknablaðinu er góð yfirferð á stöðu sjúkraflutninga á landinu. Ályktun höfunda áréttar að mínúturnar skipta öllu máli og verður að skoða alla anga til að stytta tíma frá upphafi veikinda á landsbyggðinni að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu á Landspítalanum.

Í ályktun fræðigreinarinnar kemur fram:

,,Heildarflutningstími í sjúkraflugi á Íslandi er oft langur og líklegt að það hafi áhrif á horfur sjúklinga með tímanæman heilsuvanda. Lokun Reykjavíkurflugvallar myndi leiða til enn lengri flutningstíma. Ljóst er að aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu er mjög misskipt eftir búsetu og mikilvægt að leita leiða til að jafna þann mun eins og hægt er. Brýnt er að stjórnvöld móti framtíðarstefnu í sjúkraflutningum og setji þar fram markmið um útkallstíma og heildarflutningstíma í sjúkraflugi. Betri yfirsýn og árangursmælingar geta leitt til úrbóta og aukið líkur á að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem tök eru á að veita”.

Myndin hér að neðan sýnir kort af Íslandi þar sem hver hringur táknar flugvöll sem var brottfararstaður sjúklinga á tímabilinu og stærð hrings er í samræmi við fjölda.. Mestur fjöldi sjúklinga frá Akureyri (n=1418), Reykjavík (n=1328), Egilsstöðum (n=805) og Vestmannaeyjum (n=721).

(https://www.laeknabladid.is/tolublod/2022/03/nr/7974?fbclid=IwAR0N901JsXbR9meT_TsNOzc1wDG3ek1MQh7qx9OCgguDcD5-vkJCa1x3en0)

Sérhæfða sjúkraþyrlu þarf strax
   Skýrslur um sérhæfða sjúkraþyrlu, hagkvæmni og möguleika slíks verkefnis liggja fyrir, nauðsynlegt er að slík þyrla sé til staðar á Suðurlandi mönnuð staðarvakt sem væri amk.með vetursetu í Vestmannaeyjum en hugsanlega miðsvæðis á Suðurlandi yfir sumartímann.

Hægt er að bæta lífslíkur og langtímahorfur með því að veita bráðahjálp á innan við 30 til 60 mínútna frá því að alvarleg slys eða bráð veikindi eiga sér stað, auk þess sem það dregur úr kostnaði vegna langtímaörorku.

Alvarleg lífsógnandi veikindi á borð við kransæðastíflu og blóðtappa í heila, vandamál við fæðingar og lífshættuleg slys eru þess eðlis að stuttur viðbragðstími fyrir aðkomu sérhæfðrar bráðaþjónustu eru oftar en ekki forsenda lífsbjargandi meðferðar

Sérhæfð sjúkraþyrla með staðarvakt staðsett á Suðurlandi myndi létta álagi af sjúkraflugvél á Akureyri frá landshlutanum, bæta viðbragðstíma sjúkraflugs á landinu öllu og gefa möguleika á að ein af björgunarþyrlum Landhelgisgæslunnar yrði staðsett m.a. á Vestfjörðum til að auka öryggi íbúa og sjófarenda á svæðinu.

Ég vil halda áfram að berjast fyrir sérhæfðri sjúkraþyrlu – fyrir þig
Hildur Sólveig Sigurðardóttir
Frambjóðandi í 1. Sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum