Ragnheiður Sveinþórsdóttir

Hverjir tóku eftir fréttum hérna í Eyjum um nýsamþykkt lög um hringrásarhagkerfi og að núna þurfum við Eyjamenn að spýta í lófana og græja nýja aðstöðu ekki seinna en í gær? Hver er að hlusta á allt þetta tal um sjálfbærnistefnur og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og bættan rekstur sveitarfélaga þegar þau fara að fylgja öllum þessum bullorðum?

En er þetta bull? Hvernig væri bara að þeir sem stjórna útskýri kannski öll þessi nýyrði fyrir okkur hinum og hvernig við öll högnumst á aukinni þekkingu og verðum kannski enn betur í stakk búin til að taka þátt og leggja okkar af mörkum þegar allt þetta nýja verður innleitt? Eða kannski bara ef við verðum besta sveitarfélagið þegar þar að kemur?

Til að setja þetta á mannamál þá þýðir sjálfbærni að við lifum lífinu okkar á þann hátt að við höfum það sem við þurfum en á sama tíma pössum við að næstu kynslóðir hafi það líka; að við tökum ekki meira af auðlindunum okkar en að þær geti endurnýjað sig fyrir börnin og barnabörnin okkar.

Hringrásarhagkerfi er þegar við pössum að nota aftur eða enduvinna hlutina okkar og hendum sem minnstu í almennt sorp. Að við reynum að gera við og/eða nota lengur þá hluti sem við verslum og þegar við þurfum að henda ruslinu okkar þá getum við endurunnið það.

Þegar við vinnum eftir Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þá tökum við skref í átt að sanngjarnari heimi. Heimsmarkmiðin vilja útrýma fátækt og vilja aðgang að vatni fyrir alla, jafnrétti og menntun, aðgerðir í loflagsmálum og bara alls konar sem er gott fyrir okkur öll. Þessi markmið eru einstaklega metnarfull og Ísland er af fullum krafti að innleiða þau í sinni stjórnsýslu.

Hvar stöndum við svo hérna í Vestmannaeyjum? Við ætlum að græja betra aðgengi til að henda rusli! Hefur engum dottið í hug að byrja á hinum endanum?

Vestmannaeyjabær er einn stærsti vinnustaður sveitarfélagsins og við höfum ekkert heyrt af því að byrja á fræðslu fyrir starfsfólkið, eða innkaupastefnu sem minnkar sóun og þar af leiðandi minnkar ruslið frá bænum. Er bærinn búinn að setja sér mælanlega kvarða til að vita þegar við gerum betur í umhverfismálunum? Afhverju er Kópavogur kominn lengst í þessari vinnu en ekki Vestmannaeyjar?

Við getum hiklaust gert betur. Horfum á hringrásarhagkerfið sem hringrás en ekki endastöð og byrjum á byrjuninni þegar við skipuleggjum hvað við þurfum og hvernig við ætlum að nota það. Nýtum verkfærakistu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna þegar við horfum í stefnur og áætlanir bæjarins og stofnana hans til að verða betri í heiminum. Verum sjálfbær fyrir börnin og barnabörnin okkar og miðlum þekkingunni fyrst í bænum og svo út fyrir bæinn okkar. Mig langar að við verðum best og hérna er upplagt tækifæri fyrir okkur öll til að verða best sem samfélag og skara fram úr bæði á lands- og heimsvísu.

Vestmannaeyjar – verðum best.
Ragnheiður Sveinþórsdóttir
Sækist eftir 2-4 sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum