Ragnheiður Sveinþórsdóttir

Við búum á stórkostlegum stað með stórkostlegu samferðafólki. Að horfa á Vestmannaeyjar með gestsaugum víkkar sjóndeildarhringinn og lætur mann finna til þakklætis. Í stóru myndinni erum við ótrúlega lítið samfélag, búandi á afskekktri eyju lengst norður í…

Við erum tengd náttúrunni, finnum til samkenndar og hjálpumst að. Ég átti langt samtal við fréttamann hjá BBC sem vinnur ferðafréttir, þrátt fyrir alla sögu Vestmannaeyja þótti honum áhugaverðast og merkilegast að heyra um samfélagið okkar. Hvernig við lítum á okkur sem hluta af hinum stóra heimi, að við finnum að við eigum sama rétt og stórborgarfólkið á skoðunum er varða vandamál heimsins. Að við hérna í Eyjum tökum á móti flóttafólki, hér á hjara veraldar, og okkur finnst það sjálfsagt. Honum fannst jafn ótrúlegt að aðstoðarskólastjórinn hringdi í mig í þessu viðtali til að láta mig vita að barnið mitt hefði meitt sig í skólanum.

Við höfum allt til alls og við kunnum að meta það, jafnvel betur en þeir sem hafa aðgang að öllu hinu. Við höfum samkennd með hvert öðru og öllum hinum líka. Við erum svo stórkostlegt samfélag og höfum alla möguleika til að láta gott af okkur leiða og vera fyrirmyndir.

Við viljum samvinnu og sátt, við þurfum samvinnu og sátt. Ég geri mér grein fyrir að heimurinn virkar ekki þannig en afhverju ekki að setja markið hærra? Gefum nýju fólki tækifæri til að koma með nýja sýn inn í bæjarmálin og gera bæinn okkar betri.

Ég vil að við hlúum að samfélaginu okkar og með styrkri stjórn að við verðum best. Best í samkennd, best í umhverfismálum, best í að vera ánægð með lífið, best í að vera samfélag sem hugar að hvert öðru, best í að búa til okkar litla heim þar sem íbúum líður vel og við viljum ala upp börnin okkar og bera beinin. Verðum best, alltaf. 

Vestmannaeyjar – verðum best.
Ragnheiður Sveinþórsdóttir
Sækist eftir 2-4 sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum