Sátt um samgöngur
Við eigum allt okkar undir samgöngunum. Það sést vel núna í endalausum vetrarlægðum þegar matvöruverslanir standa hálf tómar milli vörusendinga og ekki er hægt að treysta á að Herjólfur gangi alla daga. Hluti af vandanum er hin óviðráðanlega náttúra en það verður að segjast að hluti er líka heimatilbúinn. Vafi leikur á um hvort vikt hafi verið í hagsmunagæslunni undanfarið og ekki hefur verið sátt um málefni Herjólfs

Hér áður, með kröftugri hagsmunagæslu leystum við vandamál í samgöngum. Þegar til stóð að hafa flugvöllinn lokaðan á laugardögum eitt sinn var því mótmælt harkalega og úr varð að hætt var við lokunina. Á síðasta kjörtímabili var jafn ljóst og nú að enginn hér innanlands bjó yfir búnaði til að halda Landeyjahöfn opinni í samræmi við lágmarks væntingar og sótti þá bærinn hæfa aðila erlendis frá í verkið.

Það þarf fyrst og fremst sátt um samgöngur og líklega næst hún ekki nema að öðrum verið gefið tækifæri til að fara með ferðina.

Heilbrigðismál í samræmi við þjónustuþörf
Heilbrigðisþjónusta við unga sem aldna í Vestmannaeyjum er að mestu rekin frá Selfossi. Stærstu ákvarðanirnar eru teknar þar og þörfin er metin þaðan. Við upplifum sama vanda í þessum málum og flestir á Suðurlandi því það hefur sýnt sig, á jafn stóru landssvæði sem Suðurlandið er að svona kerfi getur ekki verið skilvirkt. Boðleiðirnar eru langar og hægar. Við erum í raun á sama stað og við vorum í samgöngunum áður en við tókum við rekstri Herjólfs. Við höfðum lítið sem ekkert um ástandið að segja.

Ég held að meiri aðgengi að einkarekinni þjónustu hér í Eyjum eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir undanfarið gæti verið einhvers konar lausn á þessum vanda. Slíkt kerfi gengur út á að tiltekið fjármagn frá ríkinu fylgir hverjum sjúkling á ári sem greiði fyrir þá þjónustu sem sjúklingurinn þarf, í stað þess að spítalinn fái fjármagn áætlað fyrir heildina. Þetta skapar raunverulega hvata í kerfið til að afkasta betur. Þetta gæti opnað á að skurðstofan hér opni og þar fari fram tilteknar aðgerðir sem og fæðingarþjónusta.

Græna orkan og aðgengið
Við höfum sannarlega fundið fyrir hve raforkuflutningskerfið hér á Íslandi er viðkvæmt í vetrarlægðunum. Í ofan á lag er löngu kominn tími á nýja línu yfir lögin og varaflið, sem þó hefur verið bætt nýlega, er af skornum skammti.

Ég tel að lausnin í þessum efnum sé nær okkur en við áttum okkur á. Ef raunveruleg orkuskipti eiga að eiga sér stað tel ég réttast að nýta orkuna hér í kring frekar en að sækja hana yfir lögin. Það yrði alltaf ódýrara fyrir sameiginlega sjóðinn ef við gætum virkjað sjálf hér í kring. Þróun í þessum lausnum hefur verið ótrúleg undanfarin 20-30 ár og einkennast ekki aðeins af risavöxnum vindmyllum og föstum sjávarfallavirkjum. Lausnin hér væri t.d. að vera með færanlegan sjávarfallavirkjun sem staðsetja mætti víða hér í kring og draga svo í land þegar veður eru vond. Gerðar hafa verið velheppnaðar tilraunir með eina slíka á Orkneyjum norður af Skotlandi en þannig virkjun getur séð 4000 heimilum fyrir rafmagni og því feiki nóg til að útvega heimilum hér orku og tryggja góðan forða af varaafli.

26. mars nk. er prófkjör Sjálfstæðismanna hér í Eyjum og óska ég eftir stuðningi þínum í 3. sæti á lista flokksins fyrir komandi kosningar. Við þurfum að hugsa í lausnum sem henta okkur sem hér búa.

Gísli Stefánsson
Æskulýðsfulltrúi og tónlistarkennari