Egill Arnar Arngrímsson

Nú styttist í að lundinn fari að láta sjá sig í Vestmannaeyjum.  Reglan er að hann sest upp um miðjan apríl.  Í fyrra kom mikið magn af lunda til Vestmannaeyja, svo mikið að sumir töluðu um að varla hefði sést annað eins.  Um mitt sumar hvarf lundinn í nokkurn tíma en kom svo aftur í miklu magni í lok Júlí.  Lundaveiði hefur minnkað mikið í Eyjum og má rekja það til þess að magn Lunda í Eyjum minnkaði mikið rétt eftir aldamót og er það talið meiga rekja til minnkandi fæðu við Vestmannaeyjar.  Síðastliðin 3-4 ár hefur þróunin verið í rétta átt og hefur það ekki síst sést á miklu magni af pysju sem hefur komið í bæinn síðustu ár.

Langflestir lundaveiðimenn fara í lunda til að ná kannski í soðið en ekki til að selja.  Búið er að stytta veiðitímabilið mikið þannig að aldrei verður hægt að ná þeirri miklu veiði sem áður var og kannski engin ástæða til þess í dag.  Við höfum nefnilega komist að því að það er miklu skemmtilegra að horfa á lundann en að veiða hann.
Hefðin er samt góð og mikilvægt að halda í hana.  Það er gaman að fara með börnunum sínum og leyfa þeim að taka í háf. Fyrir nokkrum árum var ákveðið að setja nær alla Heimaey í sérstakt veiðifélag.  Ein af rökunum fyrir því var að þá myndu veiðitölur skila sér betur.  Samt var það nú þannig að allir þeir sem stunda lundaveiðar þurfa að vera með veiðikort og skila inn veiðitölum fyrir næsta tímabil.   Í samtali mínu við starfsmann náttúrustofu nokkrum árum eftir að veiðifélagið var sett á þá sagði hann að veiðitölur hefðu ekki skilað sér eins og reiknað hefði verið með.
Því vil ég skora á bæjaryfirvöld að leyfa aftur almenningi sem náð hefur sér í veiðikort að veiða í öllum fjöllum á Heimaey enda engin rök fyrir að hafa þessi fjöll í veiðifélagi líkt og úteyjarnar þar sem færa má rök fyrir öryggissjónarmiðum, þar sem þessi félög halda úti veiðikofum sem gætu verið mikilvægir ef menn t.d. ílengjast í Eyjunum.  Hugsanlega mætti halda Ystakletti utan við þetta vegna langrar hefðar.
Í dag er öllum sem ekki eru í þessu félagi beint í Sæfellið sem varla getur talist gott vegna mikils álágs á fjallið og lundann þar, í stað þess að álagið dreifist um öll fjöllin.

Auðvitað geta menn haldið áfram að vera með félag en óþarfi að gera það að skyldu að ganga í þetta félag til að fá að veiða á Heimaey.

Egill Arnar Arngrímsson