Hvað er það sem fær mann til að vilja starfa í pólitík? Það er þegar maður brennur fyrir málefnum bæjarins sem maður býr í og manni langar til þess að hafa áhrif og koma sínum skoðunum á framfæri. Ég byrjaði formlega í pólitík fyrir rúmum 4 árum síðan þegar kosningabarátta Eyjalistans hófst og ég og fleiri sem sátum á listanum komum þar ný inn í þetta verkefni. Við tefldum fram metnaðarfullri stefnuskrá með málefnum sem hefur verið unnið að þetta kjörtímabil. Það sem hefur gerst á þessum 4 árum er í það fyrsta alveg heill hellingur í reynslubankann en auðvitað er það ánægjulegt að geta litið tilbaka og séð hvaða góðu málefni maður gat komið áleiðis. Á sl. kjörtímabili hef ég setið sem formaður Fjölskyldu- og tómstundaráðs. Ég hef fengið að kynnast vel hvaða verkefni felast í því að sitja í því ráði og einnig fengið að kynnast og sjá hvað starfsfólk sviðsins er að vinna flott starf. Ég mun a.m.k. líta til baka og er afar stolt af þessum 4 árum í pólitík. Ég tók ákvörðun um að gefa áfram kost á mér í þessa vinnu því ég hef mikla trú á að ég geti áfram lagt mitt að mörkum.  

Það segja sumir að manneskja þurfi að hafa breitt bak til þess að starfa í pólitík. Það er margt til í því en fyrst af öllu þarf maður að standa beinn í baki og vera ánægður með þær ákvarðanir sem maður hefur tekið. Það er aldrei hægt að taka ákvörðun þar sem allir eru sammála en ef þú hefur sterk rök á bak við þína ákvörðun þá ertu á beinni braut. Á ákveðnum tímapunktum þegar teknar eru stórar ákvarðanir og kannski ekki allir sammála þá er þarft að minna sig á að vera málefnalegur og hjóla í málefnin en ekki manneskjurnar. Það er einmitt þannig sem við í Eyjalistanum höfum starfað og ætlum okkur að starfa. Fyrir þetta kjörtímabil er Eyjalistinn með stútfullan hóp af frábæru og frambærilegu fólki. Við komum að úr öllum áttum með mismunandi reynslu á bakinu ásamt því að hafa reynslumikið fólk okkur til halds og trausts.

Á undanförnum vikum hefur Eyjalistinn auglýst fundi þar sem ýmis málefni tengd bænum hafa verið rædd og fundargestir hafa haft tækifæri til þess að koma á framfæri þeim hugmyndum sem félagið gæti unnið nánar með í kosningabaráttunni. Það hefur verið góð mæting á þessa fundi og margar góðar ábendingar og hugmyndir verið ræddar. Við vitum nefnilega að við höfum staðið okkur ótrúlega vel sl. 4 ár en við vitum líka að það má alltaf gera betur og það er einmitt það sem við ætlum okkur að gera. 

Í dag opnar kosningaskrifstofa Eyjalistans og við viljum endilega hvetja alla bæjarbúa að koma við og kíkja til okkar í kaffi og gott spjall. Það er nefnilega með samtalinu við ykkur öll sem við getum víkkað hugmyndir okkar og komið ykkar ábendingum áleiðis. Kæri kjósandi þú ert velkominn til okkar! 

Helga Jóhanna Harðardóttir