Ég hlustaði á útvarpsþátt í gær þar sem tveir oddvitar og einn frambjóðandi flokkanna sem bjóða sig fram í Vestmannaeyjum ræddu saman. Þar talaði oddviti Sjálfstæðisflokksins um það að þeim fannst meirihlutinn hafa forgangsraðað öðruvísi en þau hefðu gert á kjörtímabilinu. Það var þá sem ég hugsaði hvað það var nú gott að Eyjalistinn var í meirihluta þessi 4 ár. Því ef minnihlutinn hefði fengið að ráða þá er ég hrædd um að lítið hefði verið bætt í þjónustu bæjarins. Ætli það hefði nokkuð verið boðið upp á heilsueflingu fyrir 65 ára og eldri? Ætli starf fjölmenningarfulltrúans hefði nokkuð orðið að veruleika? Þar sem þeim fannst á þeim tíma við bara geta bætt því verkefni á aðra starfsmenn bæjarins. Ætli íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsfulltrúinn hefði verið endurvakinn? Haldið þið að það hefði verið bætt í stoðþjónustu grunnskólans? Haldið þið að það hefði verið sett aukafjármagn í skólana til þess að hefja innleiðingu á tækninni? Ætli minnihlutinn hefði gert upp alla þessa leikvelli sem þeir voru búnir að útrýma á árum áður? Þetta og svo ótal margt fleira var bætt í á þessum 4 árum. Ég vil samt að það komi fram að  með þessum vangaveltum mínum er ég ekki að meina að minnihlutinn hafi verið á móti þegar kom að því að taka þessar ákvarðanir en eftir að hafa hlustað á oddvita Sjálfstæðisflokksins í gær þá er ég fullviss um að ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið í meirihluta þá hefðu þeir aldrei haft frumkvæði af þessari þjónustuaukningu hjá bænum af því að þeir hefðu forgangsraðað öðruvísi og safnað peningunum á bók. 

 

Við þorðum að bjóða betur og munum halda því áfram ! 

 

Helga Jóhanna Harðardóttir 

  1. sæti Eyjalistans