Auglýsing Vegagerðarinnar nú fyrir helgina – um nýtt útboð á dýpkun í Landeyjahöfn – felur í sér formlega staðfestingu á því hve miklum árangri bæjaryfirvöld hafa náð í hagsmunagæslu á þessu sviði síðustu fjögur árin. Sjálfur reyndi ég eftir megni sem þingmaður að leggjast á sveif með forráðamönnum bæjarins í þessum efnum – og vonandi hefur það ekki skemmt fyrir. Með þessu nýja útboði er tvennt klappað í stein:

Dýpkað allt árið!
Fyrstu samningarnir um dýpkun fólu í sér að engin skuldbinding var um viðhaldsdýpkun í desember, janúar og febrúar. Þetta sýndi í raun það viðhorf samgönguyfirvalda að Landeyjahöfn gæti ekki/ætti ekki að vera opin allt árið. Vegna þrýstings hurfu stjórnvöld í raun frá þessum skilningi 2019 og viðurkenndu skyldu sína til að freista þess að halda höfninni opinni allt árið. Með nýja dýpkunarútboðinu núna er þess skylda viðurkennd formlega og endanlega.

Margföld afkastageta!
Þegar verið var að gera núgildandi samning um dýpkun 2018 benti ég á það í ræðu á Alþingi að þar væru gerðar alltof litlar kröfur um afkastagetu þess búnaðar, sem notaður yrði við dýpkunina, og tæknilega hæfni til athafna við vondar aðstæður í vindi og öldu. Sömu afstöðu tóku að sjálfsögðu forráðamenn Vestmannaeyjabæjar. Í nýja útboðinu er þess krafist að dýpkunarskipið geti afkastað 15.000 rúmmetrum á sólarhring (núverandi afkastageta er 4000 rúmmetrar við bestu aðstæður) og geti athafnað sig á grunnum sjó í allt að 1,7 metra ölduhæð. Það má eiginlega kalla þetta byltingu frá því sem nú er.

Og það hefur fleira gerst í samgöngumálum:

Nýr samningur um rekstur Herjólfs

Upphaflegi samningurinn milli Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar fól í sér mikla fjárhagslega áhættu bæjarins af rekstrinum. Með nýjum samningi 2020 var þessi fjárhagsáhætta bæjarins, og þar með allra Eyjamanna, minnkuð og henni skipt með réttlátari hætti á milli eiganda skipsins, Vegagerðarinnar, og rekstraraðila. Þetta hefur ásamt styrkri rekstrarstjórn tryggt prýðilega afkomu af rekstri Herjólfs.

Úttekt á Landeyjahöfn

Haustið 2020 var lokið fyrri hluta óháðrar úttektar á Landeyjahöfn. Ráðist var í þessa úttekt á grundvelli tillögu sem ég var fyrsti flutningsmaður að og fékk samþykkta á Alþingi. Síðari hluti úttektarinnar fer í útboð núna í maí og að henni lokinni verður hægt að taka ákvarðanir um þær endurbætur á Landeyjahöfn sem gera hana að þeirri heilsárshöfn sem heitið var í upphafi.

Ríkisstyrkt áætlunarflug

Með tilkomu Landeyjahafnar 2010 hætti ríkið, illu heilli, að styrkja áætlunarflug milli lands og Eyja. Síðan hefur gengið á ýmsu með áætlunarflug á markaðsforsendum og það hætti síðan alveg síðasta haust. Ástæðan er einföld segja flugfélögin: það eru ekki nógu margir sem nota flugið til að það borgi sig. Bæjaryfirvöldum tókst þó að koma því til leiðar að ríkið styrkti ákveðnar lágmarksflugsamgöngur. Lengi vel var því haldið fram að það myndi ekki samræmast Evrópureglum að ríkið styrkti flug til Eyja vegna þess að fyrir væru ríkisstyrktar siglingar, en nú hafa samgönguyfirvöld komist að þeirri niðurstöðu að svo er ekki. Og nú er Vegagerðin að ljúka undirbúningi fyrir útboð á flugi milli lands og Eyja, þótt vissulega eigi síðan eftir að tryggja fjármagnið.

Göngin!

Þegar horft er til lengri framtíðar í samgöngumálum endurvaknar auðvitað alltaf hugmyndin um göng milli lands og Eyja. Tækniframfarir hafa orðið miklar á þessu sviði frá því að umræðan um þessi mál stóð sem hæst – m.a. í gerð „ofanáliggjandi“ gangna þannig að ekki þurfi að bora sig í gegnum hafsbotninn. Nú liggur fyrir loforð samgönguyfirvalda um að ljúka rannsóknum og fýsileikakönnun á þessu verkefni.

Gjörbreyting á samskiptum við samgönguyfirvöld

Síðustu fimm ár fylgdist ég sem þingmaður býsna vel með samskiptum bæjaryfirvalda við ríkisvaldið um samgöngumál. Tók reyndar þátt í ýmsum þeirra og reyndi að leggja mitt af mörkum. Sum málin tók ég upp á Alþingi til að tryggja framgang þeirra.

Það er skemmst frá því að segja að á nokkrum síðustu árum hefur orðið algjör viðhorfsbreyting hjá samgönguyfirvöldum varðandi  þessi málefni okkar Vestmannaeyinga. Þetta gildir bæði um Vegagerðina og samgönguráðuneytið. Þar sem okkur var áður mætt með talsverðri stífni og tortryggni hefur nú tekið við vilji til samstarfs um að leysa úr vandamálum og viðfangsefnum. Upptalningin hér fyrir ofan er til vitnis um það hversu miklu hefur verið áorkað á síðustu 3-4 árum. Á þessu eru líklega nokkrar skýringar en ein þeirra er örugglega sú ákveðna og þétta – en jafnframt kurteislega – hagsmunagæsla sem bæjaryfirvöld hafa staðið fyrir.

Höldum henni áfram næstu fjögur árin líka!

Páll Magnússon
Höfundur skipar 1. sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi sveitarstjórnarkosningum