Ragnar Óskarsson

Eftir að hafa fylgst með störfum bæjarstjórnar síðustu fjögur ár og eftir að hafa rætt við stóran hóp bæjarbúa um málefni okkar Vestmannaeyinga langar mig í framhaldinu að nefna hér nokkur mál sem ég held að eigi fullt erindi við okkur kjósendur.

  • Við treystum Eyjalistanum til þess að standa áfram vörð um ríflegan frístundastyrk til eflingar tómstundastarfi barna og unglinga. Við treystum því einnig að Eyjalistinn efli starf Íþrótta-, æskulýðs og tómstundafulltrúa.
  • Við treystum Eyjalistanum til að styrkja straf fjölmenningarfulltrúa þannig að fólk af erlendum uppruna fái sem greiðastan aðgang að samfélaginu.
  • Við treystum Eyjalistanum til að halda áfram kraftmikilli heilsueflingu eldra fólks. Við treystum honum einnig til að byggja upp þjónustuíbúðir fyrir aldraða og nýtt hjúkrunarheimili.
  • Við treystum Eyjalistanum til að standa fyrir raunhæfri uppbyggingar leikskóla til framtíðar og stefnu hans um að halda gjaldskrá og fæðiskostnað leikskóla og frístundar niðri.
  • Við treystum Eyjalistanum til að styðja aukna möguleika grunn-, og leikskólakennara til símenntunar. Þá treystum við Eyjalistanum til að efla áfram sérkennsluúrræði fyrir nemendur og halda áfram tæknivæðingu grunnskólans.
  • Við treystum Eyjalistanum til að styðja áfram við ferðamálasamtökin í Vestmannaeyjum svo og að styðja við hvers konar menningarstarfsemi á fjölbreyttum sviðum.
  • Við treystum Eyjalistanum til að vera áfram í árangursríku samstarfi við íþróttahreyfinguna við að móta íþróttastefnu Vestmannaeyja til framtíðar.
  • Við treystum Eyjalistanum í umhverfismálum og stefnu hans til að koma Vestmannaeyjum í forystuhlutverk meðal sveitarfélaga í endurvinnslu sorps.

Komist Sjálfstæðismenn til valda í Vestmannaeyjum í kosningunum á laugardaginn erum við fullviss um að þessum mikilvægu félagslegu málum öllum og fjölmörgum öðrum verður fórnað. Við höldum nefnilega að þau henti ekki sérhagsmunastefnu þeirri sem einkennir þann flokk eins og kunnugt er.

Slagorð Eyjalistans „Gerum góðan bæ betri,“ á því kannski aldrei eins brýnt erindi við okkur Vestmannaeyinga eins og einmitt nú. Við skulum því standa saman gera góða bæinn betri.

Ragnar Óskarsson

P.S.

Hann Grímur, sem nú vill láta kalla sig Grím bæjó og er einn helsti talsmaður Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyju auk þess að vera orðinn umboðsmaður Gróu á Leiti eyddi miklu púðri í mig í grein hér í gær. Hvet ég fólk eidregið til að lesa greinina. Þess utan vil ég segja: Ég vona að Grímur haldi áfram að vakna hress og jákvæður á morgnanna í sínu lítillæti og hógværð og upplifi sig ávallt sem mesta Vestmannaeying í heimi.

R