Hlúum vel að eldri borgurum

0
Hlúum vel að eldri borgurum
Kolbrún Anna Rúnarsdóttir, Hildur Sólveig Sigurðardóttir og Unnur Tómasdóttir

Við hjá Sjálfstæðisflokknum viljum að þjónusta við eldri borgara sé framúrskarandi. Þetta er sá hópur íbúa sem á á undan hefur gengið, mótað samfélagið okkar og með kröftum sínum og tíma byggt þann góða grunn sem Vestmannaeyjar standa á í dag. Því teljum við það ekki bara metnað okkar heldur einfaldlega skyldu að hlúa einstaklega vel að þessum hópi fólks.

Aðstaða og aðbúnaður þarf að vera til fyrirmyndar
Það er mikilvægt að það húsnæði sem völ er á bæði fyrir eldri borgara til eignar, og til veitingar þjónustu fyrir eldri borgara sé eins og best verður á kosið. Við viljum

  • Skipuleggja íbúðakjarna miðsvæðis í bænum sérstaklega hugsaðan fyrir 60 ára +
  • Við viljum að húsnæði hjúkrunarheimilis sé framúrskarandi og þjóni þörfum heimilismanna
  • Við viljum að húsnæði dagdvalar endurspegli fjölbreytileika þeirrar þjónustu sem þar er veitt
  • Við viljum að húsnæði félags eldri borgara, Kviku, sé í sífelldri mótun með þarfir félagsmanna að leiðarljósi

Þjónusta
Vestmannaeyjabær og HSU eru helstu þjónustuveitendur eldri borgara. Við viljum efla þessa þjónustu enn frekar. Við viljum

  • Bjóða upp á dagdvöl alla daga vikunnar
  • Efla enn frekar samvinnu stuðningsþjónustu og heimahjúkrunar fyrir eldri borgara.
  • Virkja félagasamtök og áhugahópa í að eiga virkt samstarf við eldri borgara
  • Við viljum auka við þjónustuíbúðir fyrir eldri borgara
  • Við viljum fá aftur rekstur Hraunbúða á forræði sveitarfélagsins með sanngjörnum fjárframlögum ríkisins
  • Við viljum móta framtíðarstefnu í öldrunarmálum og hefja samtalið við ríkið á byggingu nýs hjúkrunarheimilis

Forvarnir og álögurKolbrún Anna Rúnarsdóttir
Það er mikill ávinningur falinn í því fyrir íbúa, sveitarfélög og ríki að eldri borgurum sé gert kleift að búa eins lengi og kostur er í heimahúsum. Á kjörtímabilinu hætti, illu heilli, meirihluti bæjarstjórnar að fella niður fasteignaskatta á eldri borgara líkt og Sjálfstæðisflokkurinn hafði gert í áraraðir. Það hefur verið keppikefli Sjálfstæðisflokksins að tryggja að álögur á þennan hóp séu eins lágar og kostur er. Við viljum:

  • Halda áfram með og efla Janusarverkefnið,
  • Skoða í samstarfi við félag eldri borgara möguleika til eflingar félagslegrar virkni eldri borgara með það að markmiði að bæta lífsgæði, andlega líðan og draga úr einangrun
  • Tryggja að álögur á eldri borgara séu eins lágar og kostur er

Þessa þætti og fleiri viljum við leggja áherslu á, á komandi kjörtímabili fáum við stuðning til. Við sækjumst eftir þínum stuðningi til að hlúa enn betur að okkar bestu borgurum, því hér eigum við heima.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir 2. Sæti
Kolbrún Anna Rúnarsdóttir 9. Sæti
Unnur Tómasdóttir 18. Sæti