Gleðilegan kjördag!

Vestmannaeyjar eru einstakur staður og það hafa verið forréttindi að vera treyst fyrir því, fyrst kvenna, að leiða þetta samfélag síðustu fjögur ár.

Þessi ár hafa verið lærdómsrík, skemmtileg, krefjandi, þroskandi og gefandi. Það skiptir máli hvernig við komum fram fyrir hönd Vestmannaeyja og hvaða hug við berum til Eyjanna. Ég hef verið stolt af því að koma fram fyrir hönd Eyjanna og í hvert einasta skipti gert það af virðingu og auðmýkt fyrir því verkefni sem mér var falið

Ég hef kynnst mörgu frábæru fólki og eignast góða vini fyrir lífstíð.  Fólkið sem hér býr er kraftmikið og hefur sýnt það undanfarin ár að við getum tekist á við áskoranir með samtakamætti og samstöðu. Við sýnum það í gleði og sorg í því felst hinn sanni Eyjakraftur og Eyjahjarta.

Kveikja neistann í samfélaginu
Á þessu kjörtímabili höfum við lækkað álögur á fólk og fyrirtæki en á sama tíma  aukið við þjónustuna. Við settum fræðslu- og fjölskyldumál í forgang og fjárfestum í innviðum. Það eru næg verkefni framundan en við erum komin vel af stað og það gefur fyrirheit um framhaldið. Áfram ætlum við að bæta hag íbúa í Eyjum.

Ég vil þakka bæjarbúum öllum og starfsfólki Vestmannaeyjabæjar fyrir samfylgdina og samstarfið þessi fjögur ár. Nú hefst nýtt tímabil og ég vil taka þátt í þeirri vegferð með okkar öfluga hóp næstu fjögur árin. Ég mun leggja mig alla fram hér eftir sem hingað til og óska eftir ykkar stuðningi til þess.

Hér eru tækifærin til vaxtar og þroska fyrir þetta magnaða samfélag. Við viljum vera í fremstu röð.

Takk fyrir hvatninguna, símtölin og skilaboðin;  þetta er ekki hægt án ykkar!

Nýtum kosningarréttinn, verum góð við hvert annað og njótum dagsins saman.

Kjósum með hjartanu X-H

Betri Eyjar – fyrir alla!

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri

Höfundur skipar 3. sæti á lista Fyrir Heimaey