Stelpurnar okkar á EM gerðu 1-1 jafntefli við geysisterkt lið Frakka í dag. Niðurstaðan hefði dugað þeim ef Ítalía og Belgía hefðu gert jafntefli í sínum leik, en Belgía sigraði þann leik með einu marki gegn engu.

Þær frönsku komust yfir strax á fyrstu mínútu leiksins og leikurinn var æsispennandi nánast allan leiktímann. Skæðustu færi Íslands átti Berglind Björg í tvígang, en inn rataði boltinn þó ekki.

Frakkar skoruðu tvö mörk sem voru dæmd af eftir að dómarar skoðuðu sjónvarpsupptökur. Í fyrra skiptið reyndist markaskorarinn rangstæður og í seinna skiptið var hendi dæmd á leikmanninn sem skoraði.

Á lokamínútu leiksins var Íslandi dæmt víti, einnig eftir að dómarar skoðuðu sjónvarpsupptöku. Dagný Brynjarsdóttir skoraði af miklu öryggi og jafnaði leikinn. Leikurinn var flautaður af strax að víti loknu. Í 105 mínútna leik var því skorað á fyrstu og síðustu mínútu.

Íslensku stelpurnar okkar geta gengið stoltar af þessu móti. Þær sýndi mikinn karakter og stóðu sig vel í þessum leik þrátt fyrir hræðilega byrjun.

Mynd: Hafliði Breiðfjörð, hjá Fótbolti.net. Frá æfingu liðsins í gær, 17. júlí.