Reglulega hefur komið til umræðu að seinka klukkunni á Íslandi um eina klukkustund til að færa hana nær sólartíma og samræma betur líkamsklukku Íslendinga.

Erna Sif Arnardóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík (HR) og forstöðumaður Svefnseturs HR, segir að niðurstöður svefnrannsókna bendi eindregið til að það myndi hafa jákvæð heilsufarsleg áhrif að seinka klukkunni um eina klukkustund.

„Allar rannsóknir sem hafa verið gerðar og allir vísindamenn sem virkilega eru að vinna á þessu sviði eru að hvetja til þess að við séum á réttri klukku, það er að segja að sól sé hæst á lofti á hádegi,“ sagði Erna Sif í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

„Það er alveg rétt að minni rannsóknir hafa verið gerðar á norðlægum slóðum, en það er auðvitað flókið að gera slíkar rannsóknir,“ segir Erna Sif.

„Það þarf þá að breyta klukkunni hjá hluta fólks og það var auðvitað það sem við vorum að vona að við gætum gert á Íslandi og gera það sem tilraunaverkefni. Ein hugmynd sem kom upp var að við myndum fá Vestmannaeyjar með okkur í lið og þau væru á annarri klukku þar sem þau eru á sér eyju, en við höfum ekki farið í það enn þá,“ segir Erna Sif létt í bragði.

Þetta kemur fram á fréttavefnum Visir.is

Erna Sif vinnur að svefnrannsóknum, og vill gera tilraunir með breytingar á klukkunni.