Neitun innviðaráðuneytisins frá 14. júlí um fjárstuðning ríkisins við lagningu nýrrar vatnsleiðslu milli lands og Eyja er blaut tuska í andlit Vestmannaeyinga. Bréf ráðuneytisins var tekið fyrir í bæjarráði á þriðjudaginn þar sem niðurstaðan var hörmuð. „Viðræður milli aðila hafa staðið yfir í meira en ár og meðan á þeim stóð voru bundnar miklar vonir við að stjórnvöld myndu veita Vestmannaeyjabæ fjárstuðning ríkisins við lagningu nýrrar vatnsleiðslu til Vestmannaeyja, vegna sérstöðu þeirra,“ segir í fundargerð.

Bæjarráð hefur nú þegar óskað eftir fundi vegna bréfsins og lýsir miklum vonbrigðum með niðurstöðu ráðherra og ráðuneytisins. Segir annað hljóð hafi verið á þeim fjölmörgu fundum sem haldnir voru. Það komi því bæjaryfirvöldum verulega á óvart að ósk Vestmannaeyjabæjar um slíkan stuðning hafi verið hafnað.

Bæjarráð fól bæjarstjóra að óska eftir fundi með þingmönnum kjördæmisins vegna málsins og segir mikilvægt að hefja undirbúning að lagningu leiðslunnar sem fyrst og fól bæjarráð bæjarstjóra einnig að óska eftir fundi bæjarráðs með forsvarmönnum HS veitna vegna málsins.

Hvað geris ef?

Óskað er eftir 700 milljóna stuðningi og niðurfellingu virðisaukaskatts á framkvæmd sem í heild kostar rúmar 1600 milljónir. Þetta fellur ráðuneytinu ekki í geð og horfir fram hjá þeirri staðreynd að Vestmannaeyjabær stendur á eyju, Heimaey sem er 13 km frá landi og aðeins berst vatn um eina leiðslu, 14 ára gamla.

Hvað ef þessi vatnsleiðsla brestur og við fáum ekki vatn í kranann, ekki í klósettin, sturtuna eða baðið? Svona mætti lengi telja. Hvað með Sjúkrahúsið, Hraunbúðir, fyrirtækin og hinar ýmsu stofnanir. Fram til ársins 1968 urðu Eyjamenn að notast við vatn af þökum og sjóveitu en sá tími er liðinn.

Hvað þarf að gera verði bærinn vatnslaus einn daginn? Læt öðrum að spá í það en finnst rétt að minna á að Árni M. Mathiesen, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi 2007 til 2009 og fjármálaráðherra 2005 til 2009 lagðist á sveif með Eyjamönnum þegar vatnsleiðslan var lögð 2008. Já, Árni stóð sig vel. Áætlaður kostnaður við leiðsluna var 1260 milljónir króna niður komin og lagði Árni Matt 700 milljónir úr ríkissjóði í púkkið.

Ómar Garðarsson.

Mynd HS – Veitur – Vatnsleiðslan komin á land á Landeyjarsandi 2008.

Allt um málið í næsta blaði Eyjafrétta.