Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum var settur á miðvikudaginn og sama dag var haldið námskeið fyrir nemendur sem eru að hefja nám við skólann. Kennsla hófst síðan samkvæmt stundatöflu á fimmtudaginn.  Innritunin gekk vel og er gert ráð fyrir svipuðum fjölda nemenda og undanfarin ár, eða rúmlega 200 að því er kemur fram hjá skólameistara.

„Nemendur stunda nám á tólf ólíkum námsbrautum og er verknámið sífellt að verða umfangsmeira. Brotthvarf eins og fram hefur komið í nýlegum gögnum frá Hagstofunni er sífellt að minnka á landsvísu í framhaldsskólum og á það einnig við um brotthvarfið hjá FÍV. Er varla mælanlegt og með því lægsta sem gerist á landinu,“ segir Helga Kristín Kolbeins, skólameistari.

„Miklar breytingar hafa orðið á námskrá framhaldsskóla sem er að skila sér og fleiri nemendur finna nám við hæfi. Ekki hafa einungis orðið breytingar á inntaki námsins heldur er umgjörðin um námið nú með öðum hætti en var fyrir áratug. Nú er upplýsingatæknin mikið notuð og gert er ráð fyrir að allir nemendur séu með eigin fartölvur í skólanum. Við notum rafræn kennslukerfi og Microsoft 365 við kennsluna sem allir nemendur fá aðgang að. Þannig komum við til móts við þann veruleika sem við búum við þar sem rafræni heimurinn er alltaf að stækka.“

Námsmat þrisvar á önn

Námsmat hefur þróast og síðastliðið vor var enginn áfangi sem kenndur var við skólann með lokapróf, heldur var um að ræða smærri próf og verkefni sem dreifð voru yfir önnina. „Við erum með formlegt námsmat þrisvar á hverri önn og köllum það vörður. Tilgangurinn með því er að nemendur sjái reglulega hvar þeir standa í náminu og er þá auðveldara að leiðbeina nemendum, ef þeir þurfa meiri aðstoð við námið. Við sjáum að þessi nálgun skilar sér og nemendur standa sig betur en áður.

En auðvitað er námið mikil vinna og mikil áhersla á að aðstoða nemendur við að skipuleggja tímann sinn til að þeir geti lokið þeim verkefnum sem ætlast er til.  Í haust verður farið að stað með þróunarverkefni við skólann um lýðræði í kennslu en skólinn fékk myndarlegan styrk frá Sprotasjóði til að takast á við það verkefni.“

Skóladagurinn byrjar seinna

Einnig hefur skólinn sótt um að verða Unesco skóli, við fáum gesti í september vegna Erasmus verkefnis sem skólinn tekur þátt í, og margt fleira er á döfinni. Við ætlum líka að breyta aðeins stundatöflunni þannig að núna hefst skóladagurinn hjá flestum klukkan 9:00 er það vegna þess að við sjáum að það sem háir nemendum okkar helst er að þeir fá ekki nægan svefn. Við vitum öll að það er mun auðveldara að fást við erfið verkefni þegar við erum úthvíld og tilbúin að takast á við daginn.

Það felast mikil tækifæri í að stunda nám í dag og við öðlumst sífellt meiri þekkingu með rannsóknum, um hvernig nám á sér stað hjá einstaklingum. Það er því lögð áhersla á fjölbreyttari leiðir til náms og fleiri skilningarvit eru virkjuð. Nám er sveigjanlegra og nemendur hafa meira svigrúm til að skipuleggja tíma sinn út frá eigin þörfum. Skólinn leggur áherslu á að búa nemendur undir framtíðina með virkri þátttöku í þjóðfélaginu og þannig að efla ábyrgðarkennd þeirra gagnvart samferðafólki sínu og samfélagi,“ sagði Helga Kristín Kolbeins að endingu.

Myndatexti:

Stúdentar setja upp hvítu kollana á skólaslitum síðasta vor.