Niðurstöður í vali á Stofnun ársins 2022 var tilkynnt á hátíð Sameykis í gær en titlana Stofnun ársins, Stofnun ársins – borg og bær og Stofnun ársins – sjálfseignastofnanir og fyrirtæki í almannaþjónustu hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr í þeim níu þáttum sem könnun byggir á að mati starfsmanna þeirra. Um er að ræða mat á innra starfsumhverfi stofnana og starfsstaða.

Stofnanir ársins 2022 eru Frístundamiðstöðin Tjörnin, Hitt Húsið, Sambýlið Viðarrima, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum og Heilsustofnun NFLÍ. Hástökkvari ársins er Menntaskólinn á Ísafirði.

Stofnun ársins er nú stærri en nokkru sinni fyrr og með talsvert breyttu sniði frá fyrri árum. Stærsta breytingin er þátttaka Reykjavíkurborgar sem nú tekur þátt fyrir allt starfsfólk. Könnunin náði til tæplega 40.000 starfsmanna á opinberum vinnumarkaði; hjá ríki, Reykjavíkurborg, sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum og fyrirtækjum í almannaþjónustu. Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og fjölmargra annarra stofnana.

Í könnuninni eru þátttakendur spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti. Markmiðið með að velja fyrirmyndarstofnanir er að hvetja stjórnendur stofnana til að huga að mannauðsmálum og auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsmanna á vinnustöðum. Alls fengust gild svör frá tæplega 16.300 starfsmönnum og svarhlutfallið var tæplega 52 prósent.