Nýverið var ráðinn nýr forstöðumaður hjá Íþróttamiðstöðinni, hann á ekki ættir
að rekja til Vestmannaeyja en er í stórum vinahóp þar sem margir eiga sterkar rætur til Eyja. Hann flytur hingað um leið og hann tekur við starfinu en hefur í raun haft annan fótinn hér um nokkurt skeið. Ástæðan fyrir þessu öllu saman, er ástin sem togar hann hingað.

En hvernig er hefðbundinn dagur forstöðumanns Íþróttamiðstöðvarinnar?
„Á þessum fyrstu tveimur vikum í starfi þá hefur enginn dagur verið nákvæmlega eins. Þetta starf er mjög fjölbreytilegt enda í mörg horn að líta. “ „Allur tíminn hefur farið í að
kynnast starfsfólkinu og öllum þeim fjölmörgu þáttum sem starfsemi hússins býr yfir. Ég er
því enn að móta mér heildræna sýn yfir reksturinn, hvað er að ganga vel og hvað má betur fara. Verkefnin sem bíða eru mörg og því er ekkert annað í boði en að ganga beint til verks. Vissulega eru mörg sóknartækifæri og margir spennandi þættir sem vert er að skoða nánar. Einn þeirra er að toga okkur inn í framtíðina og sjálf- og tæknivæða ýmsa þætti sem myndu nýtast öllum þeim sem sækja Íþróttamiðstöðina. “

Gætirðu sagt okkur aðeins frá því hvað togar í þig til Vestmannaeyja?
„Dröfn kærastan mín er héðan, dóttir Haraldar Sverrissonar og Hugrúnar Magnúsdóttur, við
erum búin að koma okkur vel fyrir hérna í Eyjum. Þetta var sameiginleg ákvörðun hjá mér og Dröfn að okkur langaði til að búa saman í Eyjum. Ég hef heimsótt Vestmannaeyjar mikið undanfarin ár með mínum vinahópi og alltaf liðið vel hér. Svo þegar við Dröfn kynnumst fyrir um ári síðan, þá hófst tímabil ferðalaga hjá okkur á milli lands og Eyja. Það gekk allt saman mjög vel en ferðalögin voru krefjandi, þannig að ákvörðunin um flutning hingað var frekar auðveld.“

Hvað er það besta við búsetu í Vestmannaeyjum að þínu mati?
„Það er margt sem ég gæti talið upp en ætli það sé ekki nálægðin við allt. Það er stutt í þá þjónustu sem í boði er, stutt í fjölskyldu og vini. Sem er í sjálfu sér bæði mjög þægilegt og veitir um leið mikinn tímasparnað. “

Hvaða ókosti finnst þér búseta í Vestmannaeyjum hafa?
„Er ekki bara klassískt að segja samgöngurnar, “ segir Hákon og brosir, enda hljóta viðbrigðin að vera mikil fyrir einhvern sem er alinn upp í hjarta Reykjavíkurborgar og þar að auki vanur afbragðsgóðum almenningssamgöngum í Kaupmannahöfn.

Um leið og ég þakka spjallið og kveð Hákon, bætir hann við að hurðin sé alltaf opin og heitt á könnunni. Ég kveð þennan nýjasta Eyjamann bæjarins full tilhlökkunar og bjartsýni yfir framtíð Íþróttamiðstöðvarinnar.

Nánar í nýjasta tölublaði Eyjafrétta sem kom út 25. ágúst sl.