Vestmannaeyjahlaupið fer fram á laugardaginn, þetta er í tólfta skipti sem hlaupið er haldið, en það hefur þrisvar sinnum verið valið götuhlaup ársins.

Magnús Bragason og Sigmar Þröstur Óskarsson eru mennirnir á bakvið þetta hlaup, sem og Puffin run sem sló öll aðsóknarmet í vor þegar 856 einstaklingar hlupu hringinn um Heimaey.

Bæði hlaupin eru krefjandi og sú dásemd sem náttúran okkar skapar er það sem fólk sækist í aö sögn Sigmars og Magga.

Það má eiginlega segja að þessi tvö hlaup slái upphaf og endi á útivstarsumrinu í Eyjum og á Íslandi, því Puffin run er fyrsta stóra hlaup sumarsins, raunar stærsta utanvegahlaup landsins, haldið fyrstu helgina í maí og Vestmannaeyjahlaupið það síðasta, fyrstu helgi september. Það síðara hefur einnig þann vafasama titil að vera erfiðasta 10K hlaup landsins.

Allur ágóði af sölu miða í hlaupið rennur til góðgerðamála. En þar að auki eru peningaverðlaun fyrir þrjú efstu sætin í öllum flokkum, fyrsta sæti í 10K gefur hundrað þúsund í aðra hönd.

Enn er hægt að skrá sig í Vestmannaeyjahlaupið, boðið eru upp á tvær vegalengdir: 5 og 10 kílómetra og ekkert að vanbúnaði fyrir hlaupagikkina í Eyjum að reima á sig skóna og vera með.

Nánari upplýsingar og skráning á Vestmannaeyjahlaup.is
Mynd: Vestmannaeyjahlaup.is