Vestmannaeyjahlaupið, sem nú er haldið í tólfta skiptið var valið götuhlaup ársins 2019 á hlaup.is og var það í þriðja skiptið sem því hlotnaðist sá heiður. Mennirnir á bak við Vestmannaeyjahlaupið eru Sigmar Þröstur Óskarsson og Magnús Bragason. Báðir miklir áhugamenn um hlaup og er Vestmannaeyjahlaupið kveikjan að Puffin Run sem er orðið fjölmennasta og stærsta utanvega hlaup á Íslandi.

„Vestmannaeyjahlaupið er erfiðasta tíu kílómetra hlaup landsins og margir okkar bestu hlaupara láta sig ekki vanta þegar ræst er. Nú er það laugardagurinn þriðja september og á ég von á góðri þátttöku,“ sagði Sigmar Þröstur í spjalli við Eyjafréttir.

„Það er gaman að vera hluti af þessum öfluga hópi sem stendur að baki báðum  hlaupunum sem hafa vaxið með hverju árinu. Puffin hlaupið sló öll met í vor þegar 856 hlupu hringinn um Heimaey sem er rúmlega tuttugu kílómetrar. Bæði eru hlaupin erfið og krefjandi og sú dásemd sem náttúra Heimaeyjar er skapar einstaka umgjörð sem fólk er að sækjast eftir,“ sagði Sigmar Þröstur.

Eyjamaðurinn sprettharði, Hlynur Andrésson kemst því miður ekki en Kári Steinn hefur aldrei látið sig vanta. „Nú er hann kominn með fjölskyldu og hún mætir öll, krakkarnir í kerrum og foreldrarnir hlaupa. Það sérstaka er að Vestmannaeyjahlaupið er hið eina þar sem peningaverðlaun eru í boði. Þeir sem eru í  fyrsta, öðru og þriðja sæti í öllum flokkum fá verðlaun. Það eru stóru fyrirtækin í Eyjum sem gera okkur þetta kleift og hæstu verðlaunin eru hundrað þúsund krónur fyrir tíu kílómetrana.

Og núna er bara að reima á sig skóna á laugardaginn og taka hringinn. Það spáir góðu veðri og engin ástæða til annars en láta sig hlakka til,“ sagði Sigmar Þröstur sem ætlar að hlaupa í ár með dótturinni, Erlu Rós. Allur ágóði rennur til góðgerðamála.

Nánari upplýsingar veita Sigmar Þröstur Óskarsson í síma 895-3339 og Magnús 897-1110.