Í fyrsta sinn hefur MATEY sjávarréttahátíð verið sett í Vestmannaeyjum. Athöfnin var öll hin glæsilegasta og fór fram í Safnahúsi Vestmannaeyja að viðstöddu margmenni. Til máls tóku Frosti Gíslason, verkefnastjóri Mateyjar, Berglind Sigmarsdóttir, formaður ferðamálasamtaka Vestmannaeyja, Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri ásamt Gísla Matthíasi Auðunssyn og Gestakokkunum; Ron, Chris, Leif og Fjölla og Junayd. 

Í máli Frosta kom meðal annars fram að MATEY væri hluti af stærra verkefni sen felur í sér að bæta ímynd Vestmannaeyja og vekja athygli á sögunni, meðal annars með gagnvirkum lausnum. 

Berglind talaði um mikilvægi lengra ferðatímabils og þeirrar staðreyndar hversu mikið hefur áunnist í ferðamálum í Eyjum síðustu ár, þar sem einungis 2% allra erlendra ferðamanna á Íslandi hefðu skilað sér til Eyja árið 2010. En nú væri sagan önnur, en betur má ef duga skal og ljóst að ferðamálasamtökin vinna hörðum höndum að óvenjulegum lausnum til að hvetja ferðamenn til heimsókna hingað. 

Listakonan Gíslína Dögg Bjarkadóttir valdi verk til að sýna um helgina, öll verkin sýna vinnslu við sjávarútveg og eru í eigu Vestmannaeyjabæjar. Athyglisvert þykir að af 800 verkum sem til eru, finnast einungis tvö málverk sem sýna konur við störf. 

Hefur verið ákveðið, í samstarfi við Lista- og menningarfélag Vestmannaeyja, að á næstu Mateyjarhátíð verði listasýning með verkum sem sýna konur við fiskvinnslustörf. 

Í stuttu samtali blaðamanns við þrjá af fimm gestakokkum hátíðarinnar kom fram að þau eru yfir sig spennt yfir dvölinni hér og hlakka til að hefja eldamennsku á morgun. Hér sé stutt í hráefnið og margvíslegt hráefni til, sem ekki finnst í öllum borgum, eins og þeim þar sem þau sumhver búa. 

Þau nefndu einnig að hátíðir eins og þessar séu mikilvægar fyrir þeirra eigin innblástur og sköpunargleði sem komi til með að skila sér beint á diska neytenda. 

Gíslína Dögg Bjarkadóttir fer yfir tölfræði listaverka sem sýna fiskvinnslustörf og veiðar.
Fjölmenni var á setningarathöfninni í Sagnheimum.
Bruggun hófst í júní á þessu ári og útkoman er hreinasta afbragð; Okkar eigin hvönn frá The Brothers Brewery er sérstaklega bruggaður fyrir MATEY.
Okkar eigin hvönn. Næsti árstíðarbjór TBB kemur út í október og ber heitið: Dirty Julie.
Hlynur Vídó stendur vaktina hjá TBB.
Salurinn í Sagnheimum er glæsilegur svipmikill með sýningarmuni um alla veggi og gólf.