„Íslenskur sjávarútvegur hefur um áratuga skeið verið burðarás í atvinnulífinu um land allt. Þessi mikilvæga atvinnugrein hefur skapað þjóðinni mikil útflutningsverðmæti og fleytt okkur fram á sviði nýsköpunar og tækni. Þá er greinin algjör undirstaða atvinnu víða á landsbyggðinni. Þetta vitum við en umræðan um greinina er engu að síður oft ansi neikvæð.

Sú umræða er óheppileg þar sem við getum verið stolt af svo mörgu varðandi okkar sjávarútveg, hann er arðbær, nýting stofna er byggð á vísindum og svona mætti lengi telja. Það liggur hinsvegar þungt á þjóðarsálinni þessi tilfinning um óréttlæti þegar fréttir berast af arðgreiðslum stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Auðlindin er sameign okkar, ætti þá ekki meira að renna til samfélagsins?“

Þetta segir Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegsráðherra í nýjasta blaði Eyjafrétta og bendir á mikilvægi þess að auka samfélagslega sátt um sjávarútveg. Þetta tölublað Eyjafrétta er svar við neikvæðri umræðu um sjávarútveg og viðleitni áhrifamikilla afla í þjóðfélaginu, að hluta ríkisrekið, til að kljúfa þjóðina í herðar niður í afstöðu til hinna ýmsu mála þar sem um sjávarútveg er að ræða.

Vestmannaeyjar eru fyrst og fremst sjávarútvegsbær og fyrsti hlekkur í keðju sem teygir sig um allan heim. Þessu eru gerð skil í blaðinu í viðtölum við okkar menn í utanríkisráðnuneytinu og Japan. Líka hvernig Portúgalir bregðast við orkukrísunni með að þurrka saltfiskinn.

Fleira má nefna en ein stórra frétta í blaðinu er að burðarfyrirtækin í Eyjum hafa á síðustu tíu árum fjárfest fyrir 55 milljarða í Vestmannaeyjum á síðustu tíu árum.

Það er líka rætt við sjómenn sem eru, sama hvað hver segir, hetjur Íslands.

Þetta og miklu fleira í Eyjafréttum sem verður kynnt á Sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll og fer í aukna dreifingu í Vestmannaeyjum í dag og næstu daga.

Nýjasta tölublaðið má lesa frítt á vefnum, smelltu á myndina hér fyrir neðan til að nálgast blaðið á pdf formi.