„Gleðilegt ár öll sömul og takk fyrir samskiptin á liðnum árum. En mest þakkir fyrir að mæta og taka þátt í þessu með okkur. Afhending Fréttapýramídanna hefur í mínum huga verið einskonar uppskeruhátíð Eyjafrétta. Er um leið skemmtilegt uppbrot á hversdeginum í Eyjum í upphafi árs. Við stöndum á tímamótum því Fréttir/Eyjafréttir fagna 50 ára afmæli á þessu ári og verður þess minnst með ýmsum hætti,“ sagði Ómar Garðarsson þegar hann ávarpaði gesti við Afhendingu Fréttapýramídanna 2023 í Eldheimum í síðustu viku.

Að mati Ómars eru Eyjafréttir og fréttasíðan eyjafréttir.is ein af stoðum samfélagsins. Til að svo verði áfram er að ýmsu að huga. Fjölmiðlun, ekki bara hér á landi heldur um allan heim stendur á tímamótum. Afmælisárið verður m.a. nýtt til að kanna þá möguleika sem eru í stöðunni. Tækifærin eru til staðar en margt bendir til þess að prentuð blöð heyri brátt sögunni til. Til að missa ekki af vagninum þarf að standa vaktina og það ætlum við að gera,“ sagði Ómar.

Þriðja vaktin

Sjálfur sagðist hann vera á þriðju vaktinni sem ritstjóri Eyjafrétta. Hann kvað starfið vera á réttri leið, þökk sé öflugu samstarfsfólki. „Hvað sjálfan mig varðar er ég ekki maður framtíðarinnar, eða eins og Kári Bjarnason, stjórnarmaður og vinur orðaði svo pent á stjórnarfundi; Hann Ómar á afmæli einu sinni á ári. Það á við okkur öll en með hærri aldri telur hver afmælisdagur meira. En ég er ekki hættur. Hef metnað til að klára afmælisárið og stefnt er að myndarlegum blöðum á árinu. Ekki síst í kringum 50 ára afmælið í júní.“

Ómar sagði okkur lifa á skrýtnum tímum þar sem þeir sem hæst öskra nái athyglinni en fólk sé skynsamt. „Á þeirri staðreynd byggi ég trú mína á bjarta framtíð okkar. Ísland er ekki verst í heimi þó til séu öfl í landinu sem telja sér hag í að níða allt niður sem íslenskt er. Það er heldur ekki ásættanlegt að menn séu nýddir niður í einhverju sem á að heita skemmtiþáttur,“ sagði Ómar. Vísaði þar til Áramótaskaups Sjónvarpsins þar sem Kristjáni Loftssyni er lýst sem blóðþyrstum drápara og Bjarni Ben er réttdræpur.

„Ég vil svo að endingu þakka öllum, lesendum og velunnurum Eyjafrétta fyrir samfylgdina frá 1986 þegar ég steig mín fyrstu skref á Fréttum. Oft mikið puð, stundum gustað hressilega en aldreii leiðinlegt.“