Trausti Hjaltason

Eftir að Flugfélagið Ernir sem þjónaði flugleiðinni til Eyja svo vel árin 2010 til 2020 hefur verið annsi stopult flug. Ernir hættu að fljúga um mánaðarmótin ágúst, september árið 2020. Icelandair reið svo á vaðið og flaug yfir sumartíman árið 2021 og hætti svo í lok sumars. Flugfélagið Ernir flaug svo aftur í skamman tíma árið 2022 en hætti því flugi fyrir nokkrum mánuðum síðan. Alltaf fækkaði ferðunum og það má segja að eftir Covid hafi í raun engin látið reyna á flug að ráði til Vestmannaeyja. Eftir sitja íbúar, atvinnulífið og ferðamenn með sárt ennið.

Verðmæti tapast í flugleysinu

Flugið hefur verið atvinnulífinu afskaplega mikilvægt, á vertíðum er oft mikið undir og getur þá skipt sköpum að fá varahluti í skip eða landvinnslu fljótt og örugglega með flugi á meðan að verðmæti eru að tapast í stopinu. Konur, börn og eldri borgarar hafa nýtt sér flugið til að sækja mikilvæga læknisþjónustu sem ekki er hægt að sækja í heimabyggð með flugi. Það vill engin senda áttræða ömmu sína eina yfir heiðina að vetrarlagi þegar það gæti verið valmöguleiki að fara í 20 min flug beint í borgina innan sama dags.

Tvö flug á dag alla daga

Það sem atvinnulífið, íbúar og ferðamenn þurfa er að lágmarki flug alla daga tvisvar sinnum á dag, að morgni og síðdegis. Það er lágmarkskrafa og þannig er hægt að byggja ofaná það. Það mun taka tíma að byggja flugið upp sem kost að nýju, til þess mun alltaf þurfa aðkomu ríkisins.

Þarf að pönkast

Ríkið verður að finna þrýsting og fá skýra kröfu, ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur mjög reglulega.. það þarf að pönkast og pönkast til að ná í gegn tveimur ferðum á dag alla daga. Ég hvet þingmenn til að pönkast, ég hvet bæjarstjóra til að pönkast, ég hvet bæjarfulltrúa til að pönkast, ég hvet atvinnulífið til að pönkast og ég hvet bæjarbúa til að pönkast, við eigum ekki að sætta okkur við núverandi ástand og við eigum ekki að sætta okkur við eitt flug á dag eða flug þrisvar í viku.

Trausti Hjaltason

Framkvæmdastjóri Hafnareyrar ehf.