Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, fór á fundi bæjarráðs í vikunni yfir stöðu undirbúnings að fjárhagsáætlun næsta árs og þriggja ára áætlun áranna 2024-2026.

Með hliðsjón af þeim forsendum sem bæjarráð samþykkti um undirbúning fjárhagsáætlunar 2023 og þeim fundum sem haldnir hafa verið í fagráðum og með bæjarfulltrúum, um eignfærðar og gjaldfærðar sérsamþykktir, er að komast mynd á fjárhagsáætlunina fyrir næsta ár. Hins vegar eru nokkrir óvissuþættir, sem áhrif gætu haft á fjárhagsáætlunina. Má þar m.a. nefna þróun viðræðna um kjarasamninga milli aðila vinnumarkaðarins og atvinnuhorfur, þ.m.t. í sjávarútvegi, aflabrögð o.fl., sem bein áhrif hafa á útsvarstekjur bæjarfélagsins. Þá má jafnframt nefna að hækkanir ákveðinna málaflokka í rekstri sveitarfélaga, svo sem málefna fatlaðra, þar sem töluvert vantar upp á framlag frá ríkinu til málaflokksins, fræðslumála o.fl. með tilheyrandi þjónustuþörfum, gætu leytt til ófyrirséðrar hækkunar á útgjöldum. Auk þessa er enn óvissa um þróun verðbólgu á næsta ári.

Gert er ráð fyrir að fjárhagsáætlunin verði lögð fyrir til fyrri umræðu bæjarstjórnar þann 25. október nk.