Hver hefur ekki heyrt fullyrðingu um það að það skipti engu máli hvort flokkað sé í tunnurnar við heimilin, þetta fari hvort eð er allt saman í burtu.
Dagný Hauksdóttir skipulag- og umhverfisfulltrúi skellti sér í bæjarferð þar sem ferlinu var fylgt eftir. Eftir farandi pistill var birtur á facebook síðu Vestmannaeyjabæjar.
Eftir að græna tunnan hefur verið losuð í sorphirðubíl er bíllinn keyrður í Herjólf og síðan áfram í flokkunarstöð Íslenska Gámafélagsins (ÍG) á Esjumelum.
ÍG hefur í áraraðir rekið flokkunarstöð en í sumar hófst rekstur mun öflugri og tæknilegri stöðvar. Á stöðinni er efninu mokað á færiband og síðan flokkað í skrefum. Fyrsta skrefið í ferlinu er gróf flokkun þar sem óæskilegur úrgangur er tekin frá handvirkt. Næst er pappi flokkaður vélrænt og málmar aðskildir með segli og að lokum er plast flokkað frá pappír handvirkt.
Útkoman er pappi, málmar, plast og pappír en um 15 starfsmenn mátti sjá að störfum í stöðinni.
Ástæða þess að ÍG fjárfestir í svo umsvifamiklum búnaði er ekki einungis af eldmóð fyrir umhverfismálum heldur vegna þess að efnin eru seld áfram sem hráefni til framleiðslu á nýjum vörum.
Vestmannaeyjabær kemur vel út úr endurvinnslunni þar sem förgunargjöld fyrir rúmmetra af flokkuðum pappa, plasti og málmum er 0 kr. en fyrir almennt sorp 25.793 kr. sem kemur líklega til með að hækka.
Pappinn er seldur til Hollands og plastið til Svíþjóðar þar sem efnin eru flokkuð betur og endurunnin eins og hægt er. Starfsfólk ÍG hefur nýlega heimsótt flokkunarstöðvarnar úti, sem hafa einnig verið endurbættar nýlega með innleiðingu tækninýjunga.
Mögulegt er að endurvinna nær allan pappa en ekki er hægt að endurvinna allt plast.
Plastið er endurunnið eins og hægt er, en undirflokkar plasts eru misjafnlega hentugir til til endurvinnslu, t.d. er yfirleitt mögulegt að endurvinna umbúðaplast. Plast sem ekki er hægt að endurvinna er nýtt sem brennsluefni til orkuvinnslu. Plastið kemur þá iðulega í stað notkunar á jarðefnaeldsneyti (t.d. olíu eða kolum) og kemur sér sérlega vel í orkukrísunni sem nú stendur á í Evrópu.
Kostnaður vegna meðhöndlunar á almennum úrgangi var um 70 milljón kr. síðustu 12 mánuði þannig að ef hægt er að auka flokkun um 10% myndu sparast með því um 7 milljónir kr. á ári.