Fram kemur í frétt á vef Vestmannaeyjabæjar að gjaldskráin sem er á heimsíðunni gildir eingöngu fyrir fyrirtæki ekki íbúa.

Vestmannaeyjabær hefur ekki verið með sérstaka íbúagjaldskrá enda hafa íbúar ekki greitt fyrir að henda sorpi á móttökustöð en nú þarf að breyta því eins og áður hefur komið fram.

Á næsta fundi framkvæmda- og hafnarráðs verður lögð fram íbúagjaldskrá. Íbúar hafa ekki verið rukkaðir og verða ekki rukkaðir fyrr en íbúagjaldskrá tekur gildi. Íbúagjaldskrá mun endurspegla raunkostnað við að flytja sorp á förgunarstað og að förgun þess eins og lög gera ráð fyrir. Þessar breytingar á gjaldtöku og umgjörð tengdu sorpinu hafa tekið lengri tíma en áætlað var. Á næstu mánuðum verður boðinn út rekstur á sorphirðu og sorpförgun. Þegar nýr rekstarasamningur liggur fyrir verður gjaldskráin tekin upp og samræmd nýjum verðum frá rekstraraðila.

Framsetningin á gjaldskráinni hefði mátt vera skýrari og hefði verið hægt að koma í veg fyrir þær áhyggjur sem íbúar eðlilega hafa að þeirri gjaldskrá sem birt er á vef Vestmannaeyjabæjar.