Það er bjart yfir í Vestmannaeyjum þessi áramótin – þótt allt sé á kafi í snjó.

Árið sem nú er að draga síðustu andartökin var okkur á margan hátt gjöfult og gott. Það áraði vel í sjávarútvegi og ferðaþjónustan náði sér aftur á strik eftir nokkur mögur covid-ár. Ýmis önnur atvinnutengd starfsemi stendur líka í blóma og það þarf ekki að fara í langan bíltúr til að sjá ótrúlega miklar framkvæmdir á vegum fyrirtækja og einstaklinga, sem er ágætur mælikvarði á þá bjartsýni og framfarahug sem hér ríkir. En hvernig getum við annars mælt hvernig okkur vegnar og líður sem bæjarfélagi og bæjarbúum? Við getum horft á atvinnustig, tekjur einstaklinga, afkomu fyrirtækjanna í bænum, afkomu sveitarfélagsins, þjónustustig, framboð á afþreyingu, menningu, íþrótta- og æskulýðsstarfi og svona mætti áfram telja. Allt þetta og fleira er miserfitt að mæla en þar sem við höfum skýra mælikvarða stöndum við býsna vel – í hvaða samanburði sem er.

Og svo eru líka beinlínis gerðar mælingar á viðhorfi landsmanna til búsetuskilyrða í því sveitarfélagi sem þeir búa. Niðurstöður úr einni slíkri, sem gerð var á vegum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, birtust í byrjun ársins – og íbúar í Vestmannaeyjum reyndust ánægðastir allra landsmanna með bæinn sinn. Loks má nefna þann einfalda mælikvarða sem felst í því hvort þeim fari fjölgandi eða fækkandi sem vilja búa hér. Og þeim fer fjölgandi. Núna í desember vorum við orðin 4,525; fjölgað um 109 á tæpu ári – og rufum 4,500 múrinn í fyrsta sinn frá aldamótaárinu 2000.

Helstu óánægjuefnin okkar – eins og fyrr og örugglega síðar líka – snúa að því sem við eigum undir ríkisvaldið að sækja: samgöngum og heilbrigðisþjónustu. En við höldum áfram að nudda því til betri vegar.

Hálf öld frá gosi

Árið sem senn hefur göngu sína markar þau merku tímamót að 50 ár verða þá liðin frá gosinu á Heimaey – og 60 ár frá Surtseyjargosinu ef út í það er farið. Mér finnst skrýtið til þess að hugsa að eftir aðeins um þrjár vikur verður nákvæmlega hálf öld liðin frá því að gosið hófst hér austur á Eyju. Ég var þá 18 ára peyi í skóla Reykjavík, nýkominn úr jólafríi heima í Eyjum, og fékk lánaðan gamlan sovéskan Moskvitch-skrjóð til að komast til Þorlákshafnar og leita að fjölskyldunni minni.

Það verður ýmislegt gert hér í Eyjum til að minnast þessara merku tímamóta og verður gerð nánari grein fyrir því innan tíðar. Þó má nefna að strax núna 23. janúar munu bæði forseti Íslands og forsætisráðherra heiðra okkur með nærveru sinni. Í vikunni fyrir goslokahelgina í sumar munu síðan forsætisráðherrar allra Norðurlandanna halda fund sinn hér í Eyjum af þessu tilefni. Og skylt er að nefna að einn frægasti myndlistarmaður samtímans,Ólafur Elíasson, vinnur nú að listaverki tengdu gosinu. Þar er um að ræða samvinnuverkefni Vestmannaeyjabæjar og ríkisstjórnarinnar.



Það bíða því mörg og margbreytileg verkefni á því spennandi ári sem nú er rétt handan við hornið!



Ég þakka ykkur öllum fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og fyrir hönd bæjarstjórnar Vestmannaeyja óska ég ykkur gæfu og gengis á nýja árinu.



Páll Magnússon

forseti bæjarstjórnar