Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman helstu atriði fjárhagsáætlana fimmtán stærstu sveitarfélaga landsins fyrir árið 2023 en í þeim búa rúmlega 85% landsmanna. Staða Vestmannaeyjabæjar er nokkuð góð í þessum samanburði. Reikningum sveitarfélaga er skipt í tvo hluta, A-hluta sem einkum er rekinn fyrir skattfé og B- hluta, en þar eru stofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu sveitarfélags sem rekin eru einkum fyrir sjálfsaflafé. Sveitarfélögum er skylt að færa reikninga og gera fjárhagsáætlanir  fyrir A-hluta og samstæðu A og B-hluta.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlana fyrir A-hluta eru:

  • Skatttekjur er áætlaðar aukast um 9% frá 2022 og tekjur í heild um 8,2%. Til samanburðar má nefna að Hagstofa Íslands spáir að verðbólga á næsta ári verði 5,6%.
  • Áætlað er að gjöld aukist um 5,9%, þ.a. launakostnaður um 6,1%, að meðtöldum breytingum lífeyrisskuldbindinga.
  • Reiknað er með að fjármagnsgjöld lækki verulega eða um 42% frá 2022 og þannig gangi gífurleg hækkun fjármagnsgjalda frá 2021 að nokkru leyti til baka.
  • Gangi þessar áætlanir eftir mun rekstrarniðurstaða batna umtalsvert og hallinn lækka um 60%. Áætlað er að hallinn verði 2,0% af tekjum, samanborið við 5,3% 2022.
  • Veltufé frá rekstri mun aukast í hlutfalli við tekjur, úr 3,6% í 5,4%.
  • Áætlanir gera ráð fyrir að fjárfestingar aukist í krónum talið en lækki lítillega í hlutfalli við tekjur og verði 14,0% í stað 14,4% 2022. Skuldir og skuldbindingar verða um 130% af tekjum skv. áætlun fyrir 2023, er örlítil lækkun frá 2022.

Þegar nánar er að gáð kemur í ljós að áætlanir eru mjög mismunandi milli þessara sveitarfélaga. Helstu niðurstöður fjárhagsáætlana þessara fimmtán sveitarfélaga eru sýndar í meðfylgjandi myndum.

  • Áætlanir um breytingu skatttekna milli ára 2020 og 2023 eru frá 0% og upp í tæp 14%. Tekjubreyting er áætluð frá -2% og allt upp í nær 16%.
  • Afkoma sveitarfélaganna er mjög mismunandi hvort sem litið er til rekstrarniðurstöðu eða veltufjár frá rekstri. Af þessum fimmtán sveitarfélögum vænta níu afgangs á rekstri árið 2023 og sex reikna með halla. Til samanburðar voru tíu rekin með halla 2022 og fimm með afgangi. Veltufé frá rekstri er áætlað verða  neikvætt um yfir 4% af tekjum hjá einu sveitarfélaganna árið 2023 og jákvætt um yfir 14% hjá öðru.
  • Mjög er mismunandi hversu miklar fjárfestingar sveitarfélögin áforma á næsta ári, eða allt frá 2,5% tekna upp í 23%.
  • Þá er vænt staða skulda og skuldbindinga á næsta ári afar misjöfn, allt frá 80% af tekjum og upp í rösklega 200% af tekjum. Sjö sveitarfélaganna reikna með að skuldir hækki í hlutfalli við tekjur en átta að hlutfallið lækki.

Sveitarfélögum er einnig skylt að gera fjárhagsáætlanir fyrir samstæðu  A- og B- hluta. Helstu niðurstöður þeirra í þeim fimmtán sveitarfélögum sem hér er fjallað um eru:

  • Áætlað er að tekjur samstæða muni hækka um 9,4% frá 2022 til 2023.
  • Reiknað er með að afkoman muni verða lakari en árið 2022 og fara úr 5,2% af tekjum í 3,7%. Veltufé frá rekstri mun einnig dragast saman í hlutfalli við tekjur og nema 10% af tekjum samanborið við 12%  2022.
  • Áformað er að skuldir og skuldbindingar samstæðna muni lækka  sem hlutfall af tekjum, úr 161% í 158%. Þá gera fjárhagsáætlanir ráð fyrir að fjárfestingar aukist og að hlutfall þeirra af tekjum verði 17,5% árið 2023, samanborið við 15,7% í ár.

Mikil óvissa ríkir um þróun efnahagsmála á næsta ári og ljóst að fjárhagsáætlanir sveitarfélaga er byggðar á margvíslegum forsendum um rekstrarumhverfið. Mikil óvissa er um þróun launa og vaxta á næsta ári en fjármál sveitarfélaga ráðast ekki hvað síst af þeim þáttum. Þá reikna flest sveitarfélaganna með því  að tekjur þeirra hækki meira en gjöldin og í mörgum tilvikum er þar byggt á aðhaldsaðgerðum sem eftir er að útfæra og hrinda í framkvæmd.

Almennt gera sveitarfélögin ráð fyrir bættum hag á næsta ári. Engu að síður benda fjárhagsáætlanir þessara fimmtán stærstu sveitarfélaga landsins til þess að halli verði á rekstri sveitarfélaga á næsta ári sem yrði þar með fjórða árið í röð með halla. Yrði það einsdæmi í sögunni.

Fjárhagur sveitarfélaga 2022 og 2023