Fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 var til umræðu á fundi bæjarráðs í gær. Í fundargerð um málið segir eftirfarandi. “Undanfarnar vikur hefur vinna staðið yfir á bæjarskrifstofum Vestmannaeyja við að skoða áhrif breytingar á álagningarprósentu fasteignaskatts á tekjur bæjarsjóðs. Bæjarráð mun taka afstöðu til álagningarprósentu fasteignaskatts fyrir árið 2024 á þessum fundi. Einnig liggur fyrir bæjarráði að endurskoða viðmiðunarfjárhæð í “Reglum um afslátt af fasteignagjöldum hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum með lögheimili í Vestmannaeyjum”.”

Í niðurstöðu sinni um málið leggur bæjarráð til við bæjarstjórn að álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði lækki á milli ára úr 0,268% og verði 0,250% (A flokki), hlutfallið verði óbreytt á opinberar stofnanir (B flokki), þ.e. 1,32% og að hlutfallið lækki úr 1,40% í 1,35% á annað húsnæði (C flokki), þ.m.t. atvinnuhúsnæði. Með þessu verður dregið úr áhrifum hækkunar fasteignamats á íbúa og fyrirtæki í Vestmannaeyjum.

Bæjarráð leggur einnig til hækkun á viðmiðurnarfjárhæð í reglum um afslátt af fasteignagjöldum hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum með lögheimili í Vestmannaeyjum.

Ný viðmið eru:
1. Fyrir einstaklinga:
a. Brúttótekjur 2022 allt að 6.000.000 kr: Full niðurfelling.
b. Brúttótekjur 2022 allt að 6.300.000 kr: 70% afsláttur.
c. Brúttótekjur 2022 allt að 6.500.000 kr: 30% afsláttur.

2. Fyrir hjón:
a. Brúttótekjur 2022 allt að 8.200.000 kr. Full niðurfelling.
b. Brúttótekjur 2022 allt að 8.700.000kr. 70% afsláttur.
c. Brúttótekjur 2022 allt að 9.300.000 kr. 30% afsláttur.