Lögð voru fyrir bæjarráð í vikunni sem leið drög að fjögurra mánaða rekstraryfirliti fyrir bæjarsjóð. Samkvæmt rekstraryfirlitinu eru heildartekjur samstæðunnar fyrstu fjóra mánuði ársins um 2,8% hærri en fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir og heildarrekstrarkostnaður um 8,7% hærri en áætlunin. Rekstrarafkoma fyrstu fjóra mánuði ársins er jákvæð.

Bæjarstjóri lagði áherslu á mikilvægi þess að gætt sé aðhalds og varúðar í rekstri bæjarins. Ljóst er á rekstri sveitarfélaga um land allt að rekstur þeirra er í járnum. Sífellt ríkari kröfur eru gerðar um þjónustu sveitarfélaga og sérstaklega af hálfu ríkisins. Ástandið í efnahagsmálum er sveitarfélögum erfitt, en fjárhagsstaða Vestmannaeyjabæjar er hins vegar sterk sem hjálpar á tímum sem þessum.

Bæjarráð leggur í niðurstöðu sinni um málið áherslu á mikilvægi þess að gætt verði aðhalds og varúðar í rekstri bæjarins. Ljóst er að rekstur sveitarfélagsins er að þyngjast. Við því þarf að bregðast með auknu aðhaldi í öllum málaflokkum bæjarins.

Við undirbúning og gerð næstu fjárhagsáætlunar þarf að leggja áherslu á aðhaldsaðgerðir og að forstöðumenn stofnana hugi sérstaklega að slíkum aðgerðum.