„Við stofnuðum hljómsveitina árið 2021 þegar ég og trommarinn,  Jón Grétar Jónasson tókum okkur til og stofnuðum hljómsveit,“ segir Kári Steinn Helgason, Skánki um hljómsveitina Hrossasauðir sem gaf út plötu í dag.

„Nafnið er tengt áhugamáli okkar, íslensku sauðfé og íslenskum hrossum og því að ég var viss um að enginn notaði þetta nafn á hljómsveit.“

Platan hefur verið í undirbúningi frá árinu 2021 en miklar breytingar hafa verið á hljómsveitinni síðan. „Núna erum við fjögur í hljómsvetinni, ég, Kári Steinn Helgason á bassa og syng, Aron Stefán Ómarsson á gítar, María Fönn Frostadóttir á gítar og syngur og Jón Grétar Jónasson á trommur. Við erum mjög sátt við plötuna sem kom út í dag, miðvikudag.

Við viljum þakka Arnari Júll í Merkúr fyrir stjórna upptökum. Algjör snillingur sem gott er að vinna með.  Hann spilaði á gítar með okkur Jóni Grétari í Sauðunum, coverbandi sem kemur fram á tónleikum á Goslokahátíðinni, útskriftum og veislum.

Já, ég er mjög sáttur og hvet alla til að hlusta á plötuna sem er á Spotify og YouTube og öðrum streymisveitum,“ sagði Kári Steinn að endingu.

Á tónleikum á Háaloftinu.

Aðsend mynd.