Sigurgeir Kristjánsson – Forseti bæjarstjórnar í gosinu – Bæjarbúar sýndu æðruleysi og dug – Unnu þrekvirki við uppbyggingu

Sigurgeir Kristjánsson var forseti  bæjarstjórnar Vestmannaeyja þegar gosið hófst á Heimaey. Hann boðaði til fundar í bæjarstjórn um morguninn kl.10:00, 23. janúar þar sem farið var yfir þá stöðu sem upp var komin í bæjarfélaginu. Ríkisstjórn Íslands hélt fund daginn eftir og ákvað að stofna fimm manna nefnd til að fara yfir hvaða afleiðingar náttúruhamfarirnar hefðu fyrir þjóðarbúið og hvaða úrræði væri helst hægt að grípa til að takast á við afleiðingarnar.

Nefndin fundaði í Vestmannaeyjum þann 24. janúar. Sigurgeir sat þann fund og marga aðra fundi nefndarinnar sem var undanfari Viðlagasjóðs. Guðlaugur Gíslason og Garðar Sigurðsson tóku sæti í stjórn Viðlagasjóðs þegar hann var stofnaður en á stjórnarfundi mætti Sigurgeir fyrir hönd bæjarins.

Hafnarbúðir miðpunkturinn

Verkefni bæjarstjórnar og starfsmanna bæjarins voru ærin og unnið að því að skipuleggja og koma málum í ákveðinn farveg á fastalandinu enda heilt bæjarfélag komið á vergang og mikil óvissa um framhaldið. Bæjarskrifstofur Vestmannaeyjabæjar fluttust í Hafnarbúðir í Reykjavík og þar var í byrjun gossins einskonar miðstöð fyrir Vestmanneyinga.

Skýrsla um starfsemi Vestmannaeyjabæjar í Hafnarbúðum birtist í Bliki 1974. Þar fjallar Georg Tryggvason m.a. um samskipti bæjarins við Almannaráð Ríkisins sem hafi verið mikil og náin. Þar segir að um tíma hafði bærinn haft fastan fulltrúa, Sigurgeir Kristjánsson, forseta bæjarstjórnar, á fundum ráðsins, sem haldnir voru daglega. Sátu þeir fyrstu dagana nærfellt stöðugt á fundum allan daginn og stundum raunar fram á nótt.

Ábyrgð Sigurgeirs var mikil

Þetta kemur heim og saman við upplifun ættingja Sigurgeirs sem muna þessa tíma og hægt að segja að hann hafi verið á kafi við vinnu enda bar hann mikla ábyrgð sem forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja.  Aldrei taldi hann þessa vinnu eftir sér og leit á hana sem sjálfsagðan hlut enda lá mikið við. Meðfram bæjarmálunum var hann forstjóri Olíufélagsins í Vestmannaeyjum og sinnti því starfi í Reykjavík tímann sem hann var í borginni eða þangað til að fjölskyldan flutti aftur til Eyja.

Eftir að gosi lauk hófst mikið uppbyggingarstarf í Eyjum og að ýmsu að hyggja. Það hvíldi mikið á þeim sem voru í forsvari fyrir bæjarfélagið. Hvort sem það sneri að hreinsun bæjarins, uppbyggingu og skipulagi eða annarra þátta og stoða sem verða að vera til staðar í hverju bæjarfélagi. Bæjarbúar sýndu æðruleysi og dug á meðan gosinu stóð og unnu þrekvirki við uppbyggingu eftir að því lauk.

Guðbjörg Sigurgeirsdóttir