Minnisvarði í tilefni 50 ára gosloka var til umræðu á fundi bæjarstjórnar í vikunni sem leið en fyrr í vikunni lágu fyrir bæjarráði drög að samningi milli menningar- og viðskiptaráðuneytis og Vestmannaeyjabæjar um verkefnastyrk til gerðar göngustígs yfir hraun að minnisvarða um eldgosið í Heimaey 1973. Þá lágu einnig fyrir ráðinu drög að viljayfirlýsingu á milli sömu aðila vegna framkvæmda við gerð umrædds göngustígs í samvinnu við forsætisráðuneytið. Málið hefur dregist og er á byrjunarstigi, á það eftir að fara í gegnum skipulagsferli áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar.

 

Bæjarfulltrúar D lista lögðu fram eftirfarandi tillögu um málið:

“Í ljósi verulegra tafa á framkvæmd og afhendingu minnisvarða í tilefni hálfrar aldar afmælis Heimaeyjargossins sem nú er liðið, yfirvofandi óafturkræfs inngrips í dýrmæta náttúru Vestmannaeyja og fyrirsjáanlegs vaxandi framkvæmdakostnaðar leggja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að staldrað verði við.

Ekki liggur fyrir kostnaðargreining á afmörkuðum hlutum verkefnisins auk þess sem hluti listaverksins er göngustígagerð í Eldfelli þar sem ekki liggur fyrir ásýnd, né hve umfangsmikil framkvæmdin er.

Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að það liggi fyrir ítarlegri kynning á verkefninu, stöðu þess, kostnaðarmat og svo framvegis.

Í framhaldi af þeirri kynningu er lagt til að málið verði sett í íbúakosningu enda varðar málefnið eina dýrmætustu og yngstu náttúruperlu og söguheimild Vestmannaeyja.”

Lagt var til að framkominni tillögu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksns, um Minnisvarða í tilefni af 50 ára goslokaafmælis, yrði vísað til bæjarráðs til frekari umfjöllunar. Sú tillaga var samþykkt.