Ég er búin að þekkja Magnús Guðjónsson síðan ég man eftir mér. Hann ólst upp á Reykjum við Vestmannabraut í Eyjum. Foreldrar hans voru Guðjón Jónsson og Bergþóra Jónsdóttir. Afi minn, Guðjón Jónsson frá Hlíðardal og Bergþóra móðir hans Magga voru systkini. Daglegur samgangur og mikil vinátta var á milli fjölskyldnanna í Hlíðardal og á Reykjum.

Ég var mjög ungur þegar ég fékk að sitja í rauða Ford vörubílnum með Magga frænda sem mér þótti mjög spennandi þar sem lítið var um einkabíla í Eyjum á þessum tíma. Magnús starfaði á Bifreiðastöð Vestmannaeyjar frá 17 ára aldri allt til ársins 1993 og gegndi formennsku í félaginu til margra ára. Eftir að hann hætti hjá BSV þá réðst hann í vinnu hjá okkur í Nethamri þar sem hann sá um netaviðgerðir og akstur. Það var enginn svikinn af vinnubrögðum hans Magga, enda erfitt að finna vandvirkari mann en hann starfaði hjá Nethamri til 75 ára aldurs.

Í gosinu reyndi mikið á starfskrafta Magga. Hann sagði mér frá því að þegar allir voru að yfirgefa Eyjuna gosnóttina miklu hafði Einar Bjarnason yfirlæknir á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja og nágranni Magga samband við hann. Einar bað hann um að vera eftir í Eyjum og hjálpa til við að flytja sjúklinga og aldraða upp á flugvöll. Þar sem Maggi var með kranabíl, sem ekki voru margir í Eyjum, var hann einnig beðinn um að aðstoða við að flytja veiðarfæri í bátana sem voru að undirbúa loðnu- og vetrarvertíð. Þrátt fyrir þetta mikla áfall sem gosið var þurfti nauðsynlega að halda áfram og koma skipunum á sjó. Eftir 15 daga vinnutörn þar sem unnið var daga og nætur ætlaði hann að skreppa upp á land og heimsækja fjölskylduna sína en eftir aðeins 2 daga var haft samband við Magga og hann beðinn að koma aftur heim til Eyja þar sem verkefnin gengu ekki eins vel í fjarveru hans.

Maggi kynntist Edith einkonu sinni þegar hún flutti til Vestmannaeyja. Edith var frá Þýskalandi og kom til Eyja með togaranum Neptúnusi árið 1952 og var hún búin að ráða sig í vist til að passa Helgu, dóttur Irmu og Hallbergs á Steinsstöðum. Maggi og Edith bjuggu alla tíð í Eyjum og eignuðust tvö börn, Jón Grétar og Jóhönnu Elísu.

Maggi var mikill Vestmannaeyingur og vildi hvergi annarsstaðar vera. Hann var einnig mikill bóndi í sér og var alla tíð með fjárbúskap með fjölskyldunni á Reykjum og seinna Dallasbændum.

Síðustu árin kom hann alltaf í kaffi á morgnana til okkar í Nethamri og fannst gott að byrja daginn á því að hitta aðra fastagesti kaffistofunnar og fengum við að heyra margar skemmtilegar og áhugaverðar sögur sem hann átti nóg af.

Að leiðarlokum minnist ég Magga frænda með miklum hlýhug og vil þakka fyrir vináttuna og samveruna í gegnum tíðina.

Guðjón R. Rögnvaldsson.