Samstök Sunnlenskra Sveitarfélaga (SASS) hafa úthlutað styrkjum fyrir vorið 2023. Átta styrkjum var úthlutað til Vestmannaeyja. Sjö á sviði menningar og einn á sviði atvinnu og nýsköpunar.

Styrkir á sviði menningar

Project Eldfell Vestmannaeyjabær
Styrkur: 600.000 kr.
Í ár eru liðin 50 ár frá myndun Eldfells í Heimaeyjargosinu 1973. Af því tilefni verður sett upp glæsileg og metnaðarfull myndlistarsýning með verkum listafólks frá mörgum löndum. Sýningin er viðamikil og verður sett upp í þremur sölum Safnahúss. Myndlistarmennirnir munu veita leiðsögn á auglýstum tímum fyrir heimamenn og gesti og eiga jafnframt samtal
við nemendur GRV og myndlistarmenn sem hér starfa um vinnu sína og rannsóknir á náttúrunni og þeim áhrifum sem hún hefur á líf mannanna.

FjallaLúðró Lúðrasveit Vestmannaeyjar
Styrkur: 500.000 kr.
Markmið verkefnisins er að viðhalda menningararfi og menningu almennt í Vestmannaeyjum. Sérstaklega með tilltiti til starfs tónlistarhópa s.s. Lúðrasveita, kóra og annarrar tónlistartengdrar menningarstarfsemi. Það er mikilvægt að skapa tækifæri fyrir tónlistarfólk að koma fram og þá er einnig mikilvægt að gefa heimamönnum færi á
að koma fram með stærri nöfnum í tónlistarheiminum.

Leikfélag vestmannaeyja – Rocky Horror 
Styrkur: 400.000 kr.
Að setja upp 10 leiksýningar hið minnsta á verkinu Rocky Horror og styðja við hinsegin menningu og hinsegin umræðu innan samfélagsins út frá verkinu. Æfingartímabil hefst 13.febrúar og lýkur með frumsýningu 5.apríl. áætluð lokasýning er 6.maí.

Hljómey- tónlistarhátið – Guðmundur Jóhann Árnason
Styrkur: 300.000 kr.
Hljómey tónlistarhátíð er hátíð þar sem ýmsir listamenn spila í heimahúsum íbúa Vestmannaeyja. Eyjamenn eru þekktir fyrir gestrisni og ætla þeir að opna stofur sínar og leyfa gestum hátíðarinnar að njóa fyrsta flokks tónlistar, frá öllum sviðum, í rólegu og fallegu umhverfi heima hjá sér.

Vor við sæinn Vestmannaeyjabær
Styrkur: 250.000 kr.
Oddgeir Kristjánsson er eitt af ástkærustu tónskáldum Vestmannaeyja, landshlutans og þótt víðar væri leitað. Nýlega áskotnaðist Sagnheimum píanó Oddgeirs. Af því tilefni stendur til að setja upp veglega dagskrá til heiðurs Oddgeiri þar sem leitast verður við að gera minningu hans hátt undir höfði í töluðu máli og með tónlistarflutningi. Dagskráin verður unnin í samráði við afkomendur Oddgeirs og Kristínu Ástgeirsdóttur, sem gaf út bók um ævi Oddgeirs á 110 ára afmæli hans þann 16. nóvember 2021.

Nýjir HEIMILISTÓNAR á tímamótum – Vestmannaeyjabær
Styrkur: 200.000 kr.
Nýir og gamlir söngvar og textar hinnar einstöku kvennahljómsveit “Heimilistónar” verður hin besta skemmtun. Sveitin mun kynna og frumflytja lag sem er sérstaklega samið í tilefni af því að 50 ár eru frá Heimaeyjargosinu. Þetta verður án efa einn
af hápuntum hátíðarhalda á Suðurlandi í ár. Þetta verða tónleikar sem auðga svo sannarlega menningarlífið á Suðurlandi. Heimilistónar eiga líka sterk tengsl við Suðurland með Eyja leik og söngkonunni Elvu Ósk Ólafsdóttur í broddi fylkingar.

Mey – Kraftur kvenna á Heimaey – Minna Ágústsdóttir
Styrkur: 200.000 kr.
Viska stendur fyrir námskeiðum, fyrirlestrum og erindum fyrir fólk í Vestmannaeyjum og víðar. Hjá Visku viljum við útvíkka hlutverkið með samþættingu ferðatengdrar menningar og fræðslu. Markmiðið með ráðstefnunni er að sameina konur og
gefa þeim tækifæri á viðburði sem þessum í Vestmannaeyjum. Veita konum innblástur, styrkja, gleðja og valdefla. Lengja ferðamannatímabilið og efla vetrarferðamennsku með því að bæta við viðburði utan háannatíma.

Styrkir á sviði atvinnu og nýsköpunar

Frís – Frostþurrkaður ís framleiddur í Vestmannaeyjum Aldingróður ehf.
Styrkur: 1.000.000 kr.
Með því að frostþurrka ís getum við mögulega breytt upplifun neytandans úr því að þurfa að neyta vörunnar á innan við 20 mín. Hvernig hljómar það ef við teljum okkur geta gert einskonar souvenir/minjagrip úr ísnum. Þú einfaldlega kaupir þína uppáhalds bragðtegund, frostþurrkaðan ís, í fallegum pakkningum. Og tekur með þér heim til Reykjavíkur, Bandaríkjanna eða borðar upp á hótelherbergi. Frís, frostþurrkaður ís, verður að þurrvöru og á að geymast upp í nammiskáp, ekki í frysti.

Lesa má nánar um um fundargerðina hér.