Árni Johnsen, fyrrum alþingismaður lést um kvöldmatarleytið í gær 79 ára að aldri á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum. Eftirlifandi kona hans er Halldóra Filippusdóttir, fyrrum flugfreyja. Sonur Árna og Halldóru var Breki sem er látinn. Halldóra átti Hauk A. Clausen en hann og Breki létust með stuttu millibili árin 2017 og 2018. Fyrir átti Árni dæturnar Helgu Brá og Þórunni Dögg.

Árni var fæddur í Vestmannaeyjum 1. mars 1944. Foreldrar: Poul C. Kanélas og Ingibjörg Á. Johnsen. Hún átti síðar Bjarnhéðin Elíasson skipstjóra og útgerðarmann í Vestmannaeyjum. Árni var kennari í Vestmannaeyjum 1964–1965 og í Reykjavík 1966–1967. Starfsmaður Surtseyjarfélagsins með aðsetur í Surtsey sumar og haust 1966 og 1967. Blaðamaður við Morgunblaðið 1967–1991. Dagskrárgerðarmaður við Ríkisútvarpið og við Sjónvarpið frá stofnun þess.

Árni vann að margs konar félagsmálum í Vestmannaeyjum og víðar. Var formaður tóbaksvarnanefndar 1984–1988. Í stjórn Grænlandssjóðs 1987–2001, í flugráði 1987–2001, í Vestnorræna þingmannaráðinu 1991–2001, formaður þess um tíma. Í stjórn Norrænu stofnunarinnar á Grænlandi, NAPA, um árabil. Formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins 1988–2001 og formaður stjórnar Sjóminjasafns Íslands 1989–1992.

Árni var alþingismaður Suðurlands fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1983–1987, 1991–2001 og Suðurkjördæmis 2007–2013. Varaþingmaður febrúar–mars 1988, nóvember 1989, mars–apríl 1990, janúar–febrúar 1991. Sat í fjárlaganefnd 1991–2001, samgöngunefnd 1991–2001 og 2007–2011 (formaður 1999–2001), menntamálanefnd 1991–2001, félagsmálanefnd 2007, félags- og tryggingamálanefnd 2007–2009, umhverfis- og samgöngunefnd 2011–2013 og í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 1994–2001 og 2007–2013, formaður 1996–2001.

Árni skráði viðtalsbækur og bækur um gamanmál alþingismanna, skrifað hundruð greina í Morgunblaðið og önnur blöð, einnig samið svítu, sönglög og sungið og spilað eigin lög og annarra á hljómplötur.

Upplýsingar af vef Alþingis, althingi.is.

Árni Johnsen var oft umdeildur en í öllum hans störfum áttu Eyjamenn Hauk í Horni. Kom hann að og hafði forgöngu að ýmsum framfaramálum og var alltaf tilbúinn að rétta fólki hjálparhönd. Hann startaði Brekkusöngnum árið 1977 þegar þjóðhátíð var haldin í fyrsta skipti á Herjólfsdal eftir gosið 1973. Stóð hann vaktina á Brekkusviðinu í meira en þrjá áratugi.

Mynd Óskar Pétur.