„Þar sem enginn þjónustuaðili er í Eyjum þessa stundina þá er markmiðið með þessu verkefni að tryggja Toyota þjónustuupplifun fyrir viðskiptavini okkar í Eyjum og mæta einfaldlega með þjónustuna til þeirra. Þetta er spennandi verkefni sem gaman verður að sjá hvernig mun þróast til framtíðar,“ segir Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota um breytta stöðu í Vestmannaeyja eftir að Nethamar, sem þjónustaði Toyota- og Lexuseigendur í Vestmannaeyjum hætti starfsemi.

Viðbrögðin eru að Toyota Kauptúni heimsækir Vestmannaeyjar og heldur smurherferð fyrir Toyota- og Lexuseigendur hér í Vestmannaeyjum undir formerkjunum „Gleðilegt smur“. Dagana 19. til 23. júní munu starfsmenn Toyota Kauptúni taka vel á móti viðskiptavinum að Flötum 21 milli kl 8:00 og 17:00 og 8:00 og 15:30 á föstudeginum.

„Við höfum fundið fyrir töluverðri þörf frá Toyota- og Lexuseigendum í Vestmannaeyjum um að mæta á staðinn og bjóða svona þjónustu,“ sagði Jón Óskar Halldórsson framkvæmdastjóri þjónustusviðs Toyota Kauptúni.

„Þjónustuherferðir okkar hafa vakið gríðarmikla ánægju viðskiptavina í gegnum tíðina og rann okkur blóðið til skyldunnar að mæta til Eyja og bjóða upp á sérherferð fyrir Eyjamenn nú þegar ekki er viðurkenndur þjónustuaðili til staðar eftir að Nethamar bílaverkstæði var selt nýjum aðilum.

Fyrirbyggjandi viðhald er lykilatriði til að tryggja góða endingu bíla, hagkvæmni í rekstri og síðast en ekki síst gott endursöluverð. Með því að fylgja leiðbeiningum framleiðanda, nota réttar olíur og viðurkennda varahluti verður virkni og ending bílsins eins og best verður á kosið. Okkur er sönn ánægja að geta farið í svona verkefni í Eyjum og vona ég að Toyota- og Lexuseigendur deili þeirri ánægju með okkur.“

Hvernig á að að bóka tíma í smurherferðina? „Best er að bóka tíma í gegnum tölvupóst á veffangið [email protected] eða einfaldlega slá á þráðinn til okkar í síma 570-5070 og munu þjónusturáðgjafar gefa tíma sem hentar.“

Munu þið koma aftur til okkar með sambærilegar herferðir í framtíðinni? „Já, ég geri ráð fyrir því, það verður spennandi að sjá viðtökurnar við þessari herferð. Toyota og Lexus bílar eru mjög vinsælir í Vestmannaeyjum og eiga vörumerkin marga trygga og góða viðskiptavini, suma til áratuga og líkt og ég sagði áðan þá viljum leggja okkar af mörkum í ljósi þess að ekki er lengur viðurkenndur þjónustuaðili á svæðinu. Starfsmenn okkar munu taka vel á móti Toyota og Lexus eigendum að Flötum 21 og við hlökkum til að sjá sem flesta og hvet ég til þess að viðskiptavinir bóki tíma í herferðina til að tryggja hentugan tíma,“ sagði Jón Óskar að endingu.