Útvarpsstöðin K100 sendir út frá Vestmannaeyjum á morgun föstudaginn 19. júní. Nánar tiltekið úr útsendingarhjólhýsi sínu sem staðsett verður á Stakkagerðistúni.

Morgunþáttur stöðvarinnar, Ísland vaknar, með þau Kristínu Sif, Ásgeir Pál og Vestmannaeyinginn Jón Axel innanborðs, hefst stundvíslega klukkan sex að morgni. Fréttirnar verða á sínum stað, fjallað verður um það helsta sem er að gerast í bænum og Siggi Gunnars í Síðdegisþættinum mun skoða hvað gerir Vestmannaeyjar að áhugaverðum stað og eftirsóknarverðum til að heimsækja, starfa á og búa á. Vestmannaeyjar eru meðal annars þekktar fyrir fjölskrúðugt fuglalíf, einskæra náttúrufegurð, áhugaverða sögu og gróskumikið mannlíf og því er von á afar fjölbreyttri umræðu.

Siggi Gunnars verður í útsendingarhjólhýsi K100 í VEstmannaeyjum á morgun – Mynd: mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Axel, sem er ættaður úr Vestmannaeyjum, segist hlakka mikið til að heimsækja heimaslóðirnar, fá að hitta fjölskylduna og ræða við áhugaverða viðmælendur þaðan.

„Ég hlakka mikið til að fara til Eyja. Ég á frábæra fjölskyldu í Vestmannaeyjum,“ sagði Jón Axel í samtali við K100.is og Morgunblaðið.
„Ég er með Vídó-blóð í æðunum og uppruninn er þar. Svo á Siggi Vídó afi 95 ára afmæli á sunnudaginn þannig að það er skemmtileg tilviljun að þetta komi upp. Það verður snilld að hitta alla,“ sagði hann og bætti við kíminn: „Ég verð svo bara í Spröngunni um helgina!“

Toyota Corolla Hybrid.

Toyotasýning með í för
Toyota mun einnig vera með bílasýningu á Stakkagerðistúni föstudaginn frá kl. 11 til 17 og taka fagnandi á móti þér með rjúkandi kaffi og súkkulaði. Toyota Corolla Hybrid, Toyota C-HR Hybrid, Toyota RAV4 Hybrid og Toyota Land Cruiser verða með í för og klárir til reynsluaksturs.