Þjóðhátíðardeginum er fagnað í dag í Vestmannaeyjum líkt og um land allt, en í dag marka 79 ár frá stofnun lýðveldis á Íslandi á Þingvöllum 1944. Bæjarbúar og gestir létu sig ekki vanta þó sólin hafi gert það.

Skrúðganga var gengin í fylgd lögreglu frá Íþróttamiðstöðinni niður á Stakkó. Fánaberar úr Skátafélaginu Faxa leiddu gönguna og Lúðrasveit Vestmannaeyja lék undir. Gísli Stefánsson setti hátíðina og Vilmar Þór Bjarnason hélt hátíðarræðu. Fjallkonan í ár var hún Erna Jóhannesdóttir sem flutti hátíðarljóð fyrir gesti.

Eins og hefð er fyrir voru hoppukastalarnir á sínum stað og börnin fengu að heilsa upp á persónur úr Ávaxtakörfunni á vegum Leikfélags Vestmannaeyja. Ávextirnir fluttu sömuleiðis tónlistaratriði fyrir fólkið. Lúðrasveit Vestmannaeyja spilaði og börn af Víkinni sungu nokkur lög undir stjórn Kristínar og Sæþórs Vídó. Fimleikafélagið Rán hélt fimleikasýningu ásamt því að bjóða upp á flos- og poppsölu með Sundfélagi ÍBV.

Hér má sjá myndir frá hátíðarhöldunum.