Í febrúar á síðasta ári samþykkti ríkisstjórnin að veita 2 milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til Vestmannaeyjabæjar vegna hugmyndavinnu fyrir minnisvarða um eldgosið í Heimaey. Gerður var samningur við Stúdíó Ólafs Elíassonar um hugmyndavinnuna. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, undirrituðu í september sl., viljayfirlýsingu um samvinnu við gerð minnisvarða í tilefni 50 ára goslokaafmælis.

„Það hefur að minnsta kosti verið ljóst mjög lengi núna að hann yrði ekki tilbúinn til sýningar eða vígslu á Goslokunum sjálfum” segir Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar, um minnisvarðann sem til stóð að vígja í Nýja hrauninu á Goslokahátíð.

Við erum rétt þessa dagana að ráða ráðum okkar um það hvernig kynningu á þessu verkefni verður háttað og þá hvenær” segir Páll og bætir við að verkefnið taki þann tíma sem það tekur og sé mest undir listamanninum sjálfum komið. „Það er enginn peningur útlagður í verkefnið enn sem komið er. Þegar hugmyndirnar voru kynntar var verið að gera ráð fyrir að sá hlutur sem sneri að listamanninum sjálfum gæti numið nálægt 100 milljónum króna. Samtalskostnaður myndi skiptast milli ríkis og bæjar, en ríkið er helmingsaðili að verkefninu” segir Páll. Aðspurður hvort Páll sé búinn að fá að sjá verkið svarar hann neitandi en hann sé búinn að fá kynningu sem listamaðurinn var sjálfur með fyrir bæjarstjórn á sínum tíma.

Ásýnd Eldfells mun breytast verulega

„Í upphafi var ég hliðholl verkefninu en eftir því sem á hefur liðið hef ég fengið ýmsar efasemdir” segir Margrét Rós Ingólfsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. „Í fyrsta lagi liggur ekki fyrir hversu kostnaðarsamt verkið verður fyrir Vestmannaeyjabæ þegar allt er tekið til. Í öðru lagi liggur nákvæm útfærsla ekki fyrir, og í þriðja lagi tel ég inngrip á hrauninu vera of mikið, en ljóst er að ásýnd Eldfells og hraunsins mun breytast verulega og þarf fólk að spyrja sig hvort vilji sé til þess. Við gerð fjárhagsáætlunar, þar sem upphaflega var gert grein fyrir málinu og samþykkt var síðan af allri bæjarstjórn og mér þar meðtalinni, var umfang minnisvarðans ekki kynnt né gerð grein fyrir sundurliðuðum kostnaði. Nú virðist bæði kostnaður og umfang vera talsvert meira en upphaflega var kynnt. Sjálfri finnst mér við eiga stórbrotið gosminjasafn sem er minnisvarði um gosið” bætir Margrét við.