Á fundi aga- og úrskurðarnefndar Knattspyrnusambands Íslands sl. 23. júní var ákveðið að sekta ÍBV um hundrað þúsund krónur vegna opinberra ummæla Daníels Geirs Moritz, formann knattspyrnudeildar ÍBV.

Í greinargerð Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ, sem tekin var fyrir kemur fram að málið varði ósæmileg opinber ummæli og myndskeið sem birt voru af hálfu formannsins. Hafi ummælin og myndbirtingin birst á Twitter reikningi Daníels. Að mati framkvæmdastjóra var með ummælunum og myndbirtingunni vegið að heiðarleika og heilindum Bríetar Bragadóttur, dómara í leik Vals og ÍBV í Bestu deild kvenna sl. 22 maí.

Hér má sjá ummæli og myndskeið Daníels.

Félaginu var gefinn kostur að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og í bréfi Daníels til nefndarinnar kemur eftirfarandi fram:

„Í ummælum mínum nefni ég að dómari hafi af ásetningi sleppt því að dæma víti. Þau orð stend ég við því dómari leiksins sér atvikið mjög vel en ákveður að dæma vitlaust gegn betri vitund. Þarna er ekki hægt að skýla sér á bakvið mistök, rétt eins og urðu í leik Stjörnunnar og ÍBV á dögunum þar sem dómari sá ekki atvik. Dómarinn sér þetta mjög vel en dæmir ekki víti.

Ummæli mín sverta ekki íslenska knattspyrnu en svona dómgæsla gerir það og hafði þetta neikvæð áhrif á það lið sem ég er í forsvari fyrir. Ég hlýt að mega benda á það.

Í viðhengi eru ummæli sem ég viðhafði einnig í þessu samtali en vantaði í kærugögn. Þar bendi ég á að dómari leiks Vals og ÍBV var ekki að dæma öðruvísi en aðrir dómarar og var þarna ekkert nýtt á nálinni varðandi Olgu. Leikmenn eru ekki spjaldaðir eins og eðlilegt væri fyrir að brjóta á henni og hún fær nær aldrei víti þótt oft sé brotið á henni innan teigs. Skoðið það frekar en að kæra okkur/mig.

Þá vil ég líka benda á að ég sýni störfum dómara ávallt virðingu, hef aldrei á þessum fjórum árum skrifað nokkuð á samfélagsmiðla fyrr en þarna. Við dómara hef ég alltaf gott samband á leikjum og fá þeir höfðinglegar móttökur hjá knattspyrnuráði þegar þeir koma til Eyja.

En þeir eru ekki yfir gagnrýni hafnir.“