Undirmannað er í Eyjum og álagið mikið segja yfirlæknar heilbrigðisstofnunarinnar þar í viðtali sem birtist á vef læknablaðsins í dag. Þeir óttast að enn verði þrengt að þjónustunni þar sem erfiðlega gengur að ráða lækna, bæði sem launamenn og verktaka. Annar þeirra hefur nú sagt starfi sínu lausu.

„Þá var ég í vinnu eða á gæsluvakt í rúmlega 4000 klukkustundir af 8700 klukkustundum ársins,“ segir hann við Læknablaðið. „Stundirnar voru svo 3100 árið 2021 og um 3800 árið 2022.“ Sá sem gengur vaktir á móti honum vinni vart minna.

Formaður Læknafélagsins og framkvæmdastjóri funduðu með þeim Davíð og Hafsteini Daníel Þorsteinssyni yfirlækni sjúkrahússins dagpart í lok maí. Þeir lýstu álaginu og því að æ erfiðara væri að fá lækna í vinnu til Eyja. Úrræðin fá og þeir oft undirmannaðir. „Við getum því nánast ekki boðið sjúklingum upp á bókaða tíma,“ segir Davíð.

Kjaramál voru efst á baugi á fundinum. Þeir lýstu bindingu í starfi og hvernig læknar í verktöku, sem áður björguðu því sem bjargað varð, fáist í minna mæli en áður. Verktakar viti að álagið á vöktunum sé mikið og það fæli frá. „Sjö símtöl eru að jafnaði áframsend í vaktsíma heilsugæslunnar á hverri vakt.“

Hafsteinn segir að hann hafi hlaupið í skarðið á heilsugæslunni í vaktafríi, þar sem ekki hafi tekist að bregðast við vandanum þar. „Segja má að ég hafi skotið mig svolítið í fótinn því ég hef mjög gaman af því að hjálpa til á heilsugæslunni þegar þörfin hefur verið brýn og ég haft tök á,“ sagði hann á fundinum.

Hafsteinn rekur það hvernig lagt hafi verið hart að honum að bæta við sig vinnu á heilsugæslunni í stað þess að taka frí eftir gæsluvaktir. Hann sagði frá óánægju sinni með það á fundinum og eftir það hefur staðan breyst. Hafsteinn hefur sagt upp störfum á stofnuninni og hættir 1. september. Framhaldið er óljóst.

Hafsteinn sagði frá því á fundinum að hann hafi bent bæjaryfirvöldum í Eyjum á að standa þurfi vörð um þjónustuna í Eyjum. Breytist forsendur starfsins, verði enn gengið á heilbrigðisþjónustuna í Eyjum. Staðan sé viðkvæm, sé stöðugt gengið á starfskrafta þeirra auk þess sem tveir læknanna séu að komast á aldur.

„Og annar þeirra er pabbi minn. Ég veit ekki hversu lengi hann kærir sig um álagið eða hvað hann gerir ef ég hverf á braut,“ segir Hafsteinn.

Steinunn Þórðardóttir sagði á fundinum að á hringferð félagsins í kringum landið hafi hún fundið að ekki sé nóg innsæi í verðmæti einstaklinganna sem standa vaktina úti á landi.

„Það er hins vegar alls óljóst hvort nokkur kemur í staðinn, hætti þeir sem þar eru. Það getur sett heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni í mikla hættu.“