Gullberg VE kom til hafnar í dag með liðlega 1.100 tonn af makríl sem veiddur var að stórum hluta úti fyrir suðurströndinni. Síðustu 200 tonnin náðust suður af Vestmannaeyjum sem sætir tíðindum, segir Jón Atli Gunnarsson skipstjóri

„Við vorum kallaðir inn til löndunar með um 900 tonn en freistuðum gæfunnar á heimleiðinni á grunnköntum við Eyjar og á Háadýpi og fylltum skipið. Þarna náðum við mjög fínum makríl, 520-530 gramma fiski, á gamalkunnugum slóðum þar sem við vorum oft að veiða makríl fyrir einum áratug eða svo.

Við verðum varir makríls á stangli hér og þar úti fyrir allri suðurströndinni en hann er nokkuð blandaður síld við grunnkantana. Það verður að fara dýpra til að fá makrílinn óblandaðan!

Íslenski síldarstofninn er orðinn stór og úr honum slæðist síld með makrílnum. Við reynum að sneiða hjá síldinni en ef á að veiða makríl í íslenskri lögsögu verður að gera ráð fyrir síld sem meðafla og þá er spurning um fórnarkostnaðinn. Slíkt kallar á síldarkvóta á móti.“

Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar, segir að upphaf makrílvertíðar nú sé mjög ólíkt því sem gerðist í fyrra. Nú berist fréttir af vaðandi makríl allt í kringum Vestmannaeyjar.

„Við veiddum makrílinn í Smugunni megnið af vertíðinni í fyrra en nú er íslenski flotinn í íslenskri fiskveiðilögsögu. Við vorum að landa úr Sighvati Bjarnasyni, Gullberg er komið til hafnar og fyrir austan land eru Ísleifur og Huginn.

Okkar skip hófu makrílveiðar 3. júlí og hafa veitt frá miðum suður af Vestmannaeyjum og austur um allt til Papagrunns. Við höfum tekið við um 4.000 tonnum til vinnslu.

Samanlagður kvóti Vinnslustöðvarinnar og Hugins er 19.000 tonn.“

Mörg skip eru við makrílveiðar nálægt mörkum lögsögu Íslands og Færeyja. Stjórnendur útgerða og skipstjórar fylgjast grannt með gangi mála hjá færeysku skipunum. Nálgist þau lögsögumörkin má segja sér að makríltorfur kunni að ganga inn í íslenska lögsögu. Þar taka íslensku skipin við makrílnum með stakri ánægju og í veiðihug.

Af vsv.is.

Ljósmyndir: Sindri Viðarsson, 12. júlí 2023.