Miðstöðin hefur frá upphafi verið fjölskyldufyrirtæki en núverandi eigendur þess eru hjónin Marinó Sigursteinsson og Marý Ólöf Kolbeinsdóttir. Sigurvin Marinó Jónsson pípulagningameistari, afi Marinós sem nú rekur Miðstöðina, stofnaði fyrirtækið árið 1940 en rak það undir sínu nafni allt til 1950 þegar það fékk nafnið Miðstöðin. Marinó Sigursteinsson er þriðji ættliðurinn sem starfar við fyrirtækið og nú hefur fjórði ættliðurinn mætt, sonurinn Bjarni Ólafur sem vinnur við hlið föður síns. Fyrirtæki sem byrjaði í pípulögnum rekur í dag alhliða byggingavöruverslun og pípulagningaverkstæði sem þjónustar stóra jafnt sem smáa og teygir anga sína upp á land.

„Það er rétt, Miðstöðin byggir á gömlum grunni og ég er fjórði ættliðurinn sem kem að rekstrinum,“ segir Bjarni Ólafur og tekur undir að margt hafi breyst frá því langafi hans stofnaði fyrirtækið árið 1940. „Já, hér er ég og dóttir mín, Emelía, sem vinnur í afgreiðslunni og er fimmti ættliðurinn. Sjálfur vann ég hér sem unglingur með skóla. Kláraði sveinsprófið hér en eftir það fluttum við fjölskyldan upp á land og ég lauk byggingariðnfræðinámi frá Tækniskólanum og kláraði meistarann. Eftir það lá leiðin til Danmerkur þar sem við bjuggum í tíu ár. Þar lærði ég byggingafræði og starfaði fyrst sem pípari í 2 ár áður og á verkfræðistofu í 5 ár en við fluttum aftur heim fyrir ellefu árum síðan. Ég var í fjögur ár hjá tæknideild Vestmannaeyjabæjar en þá kallaði Miðstöðin aftur. Það þurfti ekki að snúa upp á höndina á mér. Mér líkar að vera í atinu með skítuga putta.“

Hægt er að lesa greinina í heild sinni í nýjasta tölublaði Eyjafrétta (13. tbl.).