Gríðarlegt vikurfok í kjölfar eldgossins 1973 olli tjóni á húsum, bílum og gróðri á Heimaey. Ástandið var svo slæmt sums staðar að fólk íhugaði að flytja burt. Ýmislegt var reynt til að hefta fokið en árangurinn lét á sér standa. Haustið 1975 sendi Gísli J. Óskarsson kennari Viðlagasjóði tillögur að uppgræðslu vikursvæðanna. Þær voru samþykktar, uppgræðslan heppnaðist og í kjölfarið dró mikið úr vikurfokinu.  

Gísli J. Óskarsson kennari gerði tillögu til Viðlagasjóðs um að þekja ólífrænan vikurinn með moldarlagi þar sem gróður gæti rótfestst. Hann stýrði síðan uppgræðslustarfinu.

Gísli var við nám í danska kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn veturinn 1972-1973 og lagði m.a. stund á líffræði og eðlisræna landfræði. Svo merkilega vildi til að daginn sem Heimaeyjargosið hófst átti hann að halda erindi um Vestmannaeyjar í skólanum. Fyrstu fréttir af gosinu sem bárust þann dag voru ógnvænlegar. 

„Þær voru að Heimaey hefði sprungið í loft upp og allir farist, “ segir Gísli. „Þegar ég sá fréttamyndirnar í danska sjónvarpinu sá ég ljósin í bænum í gegnum gosmökkinn. Þá vissi ég að það voru nú ekki allir dánir og að eyjan hefði ekki sprungið í tætlur.“ 

Gísli kom heim í júní 1973 og náði að sjá síðustu öskubólstrana stíga upp úr Eldfelli. „Það var sorti yfir öllu. Eini græni bletturinn sem ég sá var í kringum minnisvarðann um hrapaða og drukknaða við Landakirkju,“ segir Gísli. Aðal áherslan var á hreinsunarstarfið til að byrja með. Gísli fékk vinnu um sumarið við að aka vörubíl, þótt hann væri ekki með meirapróf. Það þurfti að nota allar vinnandi hendur og var unnið á vöktum. 

„Landgræðslan var fengin til að setja bindiefni yfir vikurinn, en illa gekk að ná gróðrinum af stað. Askan var gjörsamlega ólífræn, mjög grófkornótt og hélt hvorki áburði eða raka,“ segir Gísli. Eftir gosið risu ný hús ofarlega í bænum. Gríðarlegt vikurfok var þar í óveðrum. Eftir eina óveðursnóttina var um 30 sentimetra djúpt vikurlag á lóðinni við hús Friðriks Ásmundssonar við Smáragötu, til dæmis. „Menn töluðu um það í fúlustu alvöru að flytja aftur upp á land, eyjan væri óbyggileg vegna vikurfoksins,“ segir Gísli. 

Skýrslan sem hann sendi Viðlagasjóði heitir Uppgræðsla á Heimaey. Þar lagði Gísli til að sett yrði þunnt moldarlag ofan á vikurinn þar sem gróður gæti fest rætur. Það þyrfti ekki nema 5-10 sentimetra lag af lífrænu efni til að binda raka og áburð svo gróður ætti sér lífsvon.  

Viðlagasjóður samþykkti tillögurnar og var Gísli fenginn árið 1975 til að skipuleggja uppgræðsluna og gera áætlun um mannafla, kostnað, frætegundir og annað sem til þurfti. Fá þurfti öflugt fólk sem var tilbúið til að framkvæma verkið á fljótan og skilvirkan hátt. Moldarnámur fundust m.a. austan við Helgafell, umhverfis Dalabúið, norðan við flugvöllinn og sunnan gígaraðarinnar. Holurnar eftir moldarnámið voru fylltar með vikri, síðan var stráð mold þar yfir og sáð í svo engin missmíði sæist á landinu eftir moldartökuna. Í dag eru þetta falleg og gróin tún. 

„Ég gerði ráð fyrir því að það þyrfti um 150 þúsund rúmmetra af mold til að þekja þau svæði sem þurfti að græða upp,“ segir Gísli. Svæðin voru Haugarnir og svæðið milli Helgafellsbrautar og Eldfellsvegar. Þá var Eldfellið einnig grætt upp að hluta. Hraunkantar voru þaktir með mold og græddir upp. Eins var grætt upp þar sem íþróttamannvirkin standa nú, golfvöllurinn og dalbotninn í Herjólfsdal. Gísli áætlar að uppgræðslusvæðin hafi verið alls um 220 hektarar. 

Allt að 100 manns unnu að uppgræðslunni 

Byrjað var að fjarlægja vikurinn úr norðurhlíðum Helgafells veturinn 1976. Á vikursvæðunum voru fjarlægðir rúmlega 200 þúsund rúmmetrar. Hluti hans var notaður til að hækka skarðið milli fellanna og mynda betra skjól fyrir bæinn í austanáttum. Við þetta voru notuð flest jarðvinnslu- og ámoksturstæki Áhaldahússins ásamt vörubílaflota Bifreiðastöðvar Vestmannaeyja auk tækja smærri fyrirtækja. Unnið var á vöktum allan sólarhringinn hluta júní- og júlímánaða 1976. Þegar mestur kraftur var í verkinu unnu um 100 manns í uppgræðslunni. 

„Tveir vinnuhópar tóku norðurhlið Helgafells á einum degi,“ segir Gísli. „Strákarnir báru poka með fræi og áburði upp í hlíðarnar. Stelpurnar dreifðu úr þessu og rökuðu blöndunni niður í jarðveginn. Við höfðum reiknað með að verkið tæki 16 tíma. Vinnuhóparnir unnu verkið frá kl. 8 að morgni til klukkan 19. Til þess að ná þessu slepptu þau m.a. matar- og kaffitímum en fengu greitt fyrir 16 tímana. Þetta skilaði feiknar góðum árangri. 

Piltarnir báru á bakinu 25 kg þunga poka með blöndu af grasfræi, tilbúnum áburði og fiskimjöli. Stúlkurnar dreifðu þessu yfir moldarlagið og rökuðu niður. Helgafell er nú betur gróið en það var fyrir gosið 1973.

Við fengum geysilegan stuðning frá fiskimjölsverksmiðjunum sem gáfu okkur kynstur af fiskimjöli. Það var varanlegur lífrænn áburður. Einnig fengum við mikið af tilbúnum áburði og blönduðum þessu saman. Það var valinn maður í hverju rúmi, allt frá unglingum upp í fullorðið fólk. Þeirra á meðal voru fyrrverandi bændur í Eyjum, vörubílstjórar og tækjamenn. Landgræðslan kom inn í verkið á síðari stigum bæði hvað varðaði ráðleggingar, útvegun fræja og áburðar og ekki síst áburðar- og frædreifingu úr flugvélum. Var þetta framlag Landgræðslunnar ómetanlegt.“ 

Verkið fór ekki fram úr kostnaðaráætlun 

Gísli hafði yfirumsjónina með verkinu og var með verkstjóra og flokksstjóra. „Við héldum fundi daglega þar sem var farið yfir hvað átti að gera næsta dag. Einnig skoðuðum við svæðin daginn áður en unnið var í þeim. Það var áætlað hvað hvert verkefni tæki mikinn tíma. Ef vinnan gekk betur en áætlað var þá fékk fólkið frí á launum það sem eftir var af vinnutímanum. Þetta gekk allt upp og verkefnið fór ekki fram úr kostnaðaráætlun sem var upp á 113,5 milljónir króna. Það voru nálægt 12 milljónir ónotaðar af fjárveitingunni eftir sumarið sem færðust til næsta árs. Þessi árangur náðist fyrst og fremst með frábærri fjármálastjórn Arnars Sigurmundssonar sem þá var fulltrúi Viðlagasjóðs í Eyjum.” 

Þar sem átti að hefta vikurinn strax var sáð höfrum. Sandfax var notað þar sem gras þurfti að vera þolið. Einnig var víða sáð vallarsveifgrasi. Melgresi var plantað austast við brúnirnar á Haugunum. Rót hverrar plöntu var sett í pappírspoka fylltum með sandi sem síðan var grafinn beint í vikurinn. Sandurinn geymdi nægan raka svo plantan lifði og rótfestist. Þannig voru mynduð skjólbelti úr melgresi. 

„Maður skoðaði álagsblettina og valdi grastegundir út frá því. Það var eitt skilyrði: Sáningin varð að heppnast í fyrstu tilraun. Það þýddi ekki að hafa auða bletti, í þessu. Vinnuhóparnir vissu að ef svæði voru slælega unnin þá yrðu þeir ræstir út aftur til að endurtaka verkið á eigin kostnað. Það reyndi bara einu sinni á það,“ segir Gísli. 

Gríðarmikið vikurfok úr Eldfelli 

Árið eftir var uppgræðslunni haldið áfram og lagfært það sem hafði gengið úr lagi frá árinu áður. Gísli hafði samband við Jónas Elíasson verkfræðiprófessor sem kom til Vestmannaeyja  1977 og 1978 og kannaði efnisflutning og vikurfok úr Eldfelli á árunum 1974-1977.  

„Að meðaltali var efnishreyfing í Eldfelli um 195 þúsund rúmmetrar á ári, samkvæmt mælingum Jónasar. Við skoðuðum kornastærðir og þá kom í ljós að fínasta efnið fauk yfir byggðina, um 15 þúsund rúmmetrar á ári,” segir Gísli. Tveir vindpunktar, þar sem vindur veldur mestu álagi, eru í Eldfelli. Annar er að norðaustan og hinn þar sem erfiðast er að binda gróður í hlíðum fellsins. Austurpunkturinn gekk inn um 8,3 metra á einu ári vegna vindálags og vikurflutnings. Eldfell er líka alltaf að lækka og ljóst að það mun enda sem ávöl hæð eða fell, nema fína efnið bindist og kleprar verði eftir líkt og í Helgafelli sem er klepragígur. 

„Uppgræðslan gerði Heimaey byggilega. Fólk hætti að tala um að flytja í burtu vegna vikurfoksins. Nú er Helgafell betur gróið en það var fyrir gos. Það sést greinilega á myndum,” segir Gísli. 

Greinina má einnig lesa í 13. tölublaði Eyjafréta.