„Hvítu tjöldin“

Kristinn Pálsson skrifar

Kristinn Pálsson

Eyjamenn flytjast nær oftast búferlum yfir Þjóðhátíð þegar tjaldborg rís í Herjólfsdal fyrir þrjá daga á ári. Tjöldin eru nú nýlega flest öll aftur komin í geymslu eftir vel heppnaða hátíð, þó einhver tjaldanna hafi ákveðið að halda gleðinni áfram og skemmta sér aukalega á Menningarnótt í Reykjavík. Þannig er í dagskrá hátíðarinnar auglýst „hvítt tjald“ í ráðhúsi Borgarinnar í tilefni 50 ára eldgoss á Heimaey.

„Ætlar þú að vera með hvítt tjald í ár?“, sagði enginn alvöru eyjamaður við annan eyjamann. Eyjamenn tala almennt sín á milli ekki um „hvítu tjöldin“ enda eru þetta í hugum okkar bara tjöld. Sá sem spyr að slíku getur varla hafa ímyndað sér þann möguleika að vestmannaeysk fjölskylda ætlaði sér til að mynda að vera í appelsínugulu Tal-tjaldi um hátíðina. Hefðin meðal heimafólks er auðvitað sú að sett séu upp „hústjöld“ í Dalnum.

Þó málvenja þessi og uppnefni „hvítu tjaldanna“ sé nú að finna í hátíðardagskrá afmælis borgarbúa er það ekki síður farið að festa sig í sessi meðal eyjamanna. Skammir eiga eflaust helst skilið reykvískir fréttamenn sem ekki hafa vitað betur og einblínt á lit tjaldanna í áraraðir í umfjöllunum sínum. Margir muna hugsanlegt landnám málvenjunnar sem kom með krökkunum er sóttu hátíðina heim og heimsótt tjöld heimamanna í von um ætan bita. Ástæða raunverulegrar nafngiftar hústjaldanna á sér þó eldri sögu og dýpri rætur í hátíðinni en gestkomin marglituð kúlutjöld sem síðar sáust í Herjólfsdal.

Hústjöldum hefur þannig verið tjaldað í meira en heila öld og tjöldun fylgt hátíðinni nær alla tíð. Það fyrsta er sagt hafa litið dagsins ljós árið 1908 og þeim farið ört fjölgandi upp úr því. Á fyrri hluta síðustu aldar mátti þó sjá tvær áberandi gerðir „hvítra tjalda“ í Dalnum. Það voru hin þá nýstárlegu hústjöld sem skáru sig þá frá eldri stagtjöldum en stagtjöldin voru sett upp með tveimur súlum en hliðarnar strekktar út með böndum og hælum svo mynda mætti burst. Til aðgreiningar fékk hin nýja formfastari útfærsla heitið „hústjald“ og hefur alla tíð borið það nafn með rentu. Hústjöld og stagtjöld voru jafnan aðgreind í Dalnum, hvor gerð með sínar götur.

Ljósmyndasafn Vestmannaeyja.

Mögulega tekst okkur ekki að uppræta uppnefnið með öllu og hugsanlega munum við með tímanum apa þetta eftir og afmá þannig upprunalegt heiti. Kannski er ég einn þeirra fáu minnar kynslóðar sem alinn er upp við rétt heiti tjaldanna og mun ég hér eftir sem áður angra fólk með leiðréttingum. Líkt og ekki munu hverfa úr orðaforða mínum; peyi, tuðra, smúla og hrossafiðrildi, þá mun ég sjá sóma minn í að halda í hefðina og bjóða vini mína velkomna í „hústjald“ okkar eða einfaldlega tjald fjölskyldunnar.

Tjöldin eru vissulega hvít, tjörnin oftast blá og dalurinn grænn. Útskýringin á litnum er í raun með öllu óþörf enda hefðu aðrir litir á tjaldi verði afkáraleg hugmynd, til að mynda hvað varðar birtu og upplifun. Mögulega er þetta tapað stríð og nýtt vörumerki hústjaldanna komið til að vera. Í raun ófrumleg tilraun til uppnefnis með eftirá skýringu um útlit þeirra. Kannski var ekki við miklu að búast í frumlegum nafngiftum aðkomufólks að sunnan, þegar heila nefnd sérfræðinga í menntamálaráðuneytinu þurfti á sínum tíma til þess að nefna nýtt eldfjall; Eldfell.

En í tilefni gosafmælisins verður nú að finna hústjald um helgina í ráðhúsi Reykjavíkur þar sem eyjamenn verða heiðursgestir.

 

Kristinn Pálsson
Höfundur er eyjamaður