Grunnskóli Vestmannaeyja var til umræðu á fundi fræðsluráðs í liðinni viku. Fram kom á fundinum að skapast hefur tækifæri til að yfirfara og meta skipuritið hjá Grunnskóla Vestmannaeyja. Lagt er til að skipaður verði starfshópur til að vinna að því og í honum verði, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs, fræðslufulltrúi sem verður jafnframt formaður stýrihópsins, formaður og varaformaður fræðsluráðs og aðfenginn sérfræðingur. Stýrihópurinn mun kalla til sín starfsfólk skólanna og hagsmunaaðila eins og þurfa þykir.

Ráðið samþykkir í niðurstöðu sinni um málið að stofna umræddan starfshóp og felur honum að yfirfara og meta skipurit skólans. Ráðið óskar eftir því að starfshópurinn skili fyrstu niðurstöðum eigi síðar en 6. október.