Grunnskóli Vestmannaeyja hefur verið starfræktur frá haustinu 2006 en þá sameinuðust Barnaskóli Vestmannaeyja og Hamarsskóli. Skólanum er aldursskipt og eru nemendur á yngsta stigi í Hamarsskóla en þau eldri í Barnaskólahúsinu. 

Í skólanum hefur verið mótuð skýr stefnu um framtíðarsýn fyrir starfið á næstu árum þar sem helstu áherslur eru snemmtæk íhlutun, lestur og læsi, náttúruvísindi, tæknimennt og heilsuefling. 

Fyrir þremur árum hófst í skólanum þróunarverkefni til tíu ára sem er stutt af Vestmannaeyjabæ, mennta- og barnamálaráðuneyti, Háskóla Íslands og Samtökum atvinnulífsins. Verkefnið, Kveikjum neistann, nær nú til þriggja yngstu árganganna, en meðal annars er stefnt að því að efla læsi og lesskilning, skapandi skrif, framsögn og leikni í stærðfræði. Þá er unnið að því að nemendur öðlist ástríðu fyrir náttúrufræði og umhverfisfræði og að þeir bæti hreyfifærni, hreysti og einbeitingu. Sem dæmi um úrfærslur má nefna svokallaða ástríðutíma þar sem kennarar þróa og búa til tíma þar sem börnin fá að glíma við viðfangsefni sem þau hafa ástríðu fyrir og m.a. byggt á hugmyndum frá þeim. Þá hefur hreyfing barnanna verið aukin og efnt til fjölþætts samstarfs við Bókasafns Vestmannaeyja. 

Bakhjarl verkefnisins er Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar við Háskóla Íslands, sem leitt er af Hermundi Sigmundssyni, prófessor við Háskóla Íslands, ásamt teymi fræðimanna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og NTNU háskólann í Noregi. Verkefnið hefur skilað góðum árangri og vakið athygli og umræðu. 

Í skólanum hefur verið unnið að fjölmörgum öðrum skólaþróunarverkefnum. Teymiskennsla hefur verið innleidd í nokkrum árgöngum og skipulega unnið að spjaldtölvuvæðingu. Allir nemendur skólans hafa nú aðgang að tæki, spjald- eða fartölvu. Þá má nefna lokaverkefni nemenda í 10. bekk sem vakið hafa athygli fyrir fjölbreytt og skapandi viðfangsefni og skil (sjá t.d. dæmi hér).  

Val nemenda hefur verið aukið til muna, bæði í gegnum ástríðutíma Kveikjum neistann og á unglingastigi ( sjá dæmi hér). Skólinn hefur innleitt Uppeldi til ábyrgðar og Orð af orði og er þessi hugmyndafræði orðinn órjúfanlegur hluti af skólanum. Náttúran í nærumhverfi leikur stóran þátt í kennslu og hver árgangur á sína náttúrustíga, fugl, fisk og plöntu.   

Skólastjóri Grunnskólans í Vestmannaeyjum er Anna Rós Hallgrímsdóttir. 

Í umsögn sem fylgdi tillögu að tilnefningu skólans sagði m.a.:

Starfsfólk Grunnskólans í Vestmannaeyjum hefur í samstarfi við fræðafólk ráðist í það að brjóta upp dagsskipulag skólastarfs, auka vægi barna í skipulagi síns starfsumhverfis og fjölga þeim stundum sem börnin hafa bein áhrif á með því að velja sér ástríðutíma. Að því er virðist án þess að draga úr mikilvægi „hefðbundinnar“ nálgunar. Eins er ég heillaður af því að teymið er að vinna að nýjum leiðum til þess að skima stöðu barna í lestri …