Elliði Snær Viðarsson, leikmaður Gummersbach, er vitanlega í úrvalsliði 9. umferðar þýsku 1. deildarinnar í handknattleik sem kynnt var til sögunnar í gærmorgun, þriðjudag, eftir að síðasta leik umferðinnar lauk á mánudagskvöld.

Ekki er nóg með að Elliði Snær er í liðinu umferðinnar heldur fær hann einkunnina 100, sem er hæsta einkunn sem gefin er. Hann er um leið fyrsti leikmaðurinn á keppnistímabilinu í þýsku 1. deildinni sem fær 100 í einkunn.

Skal fáa undra að Elliði Snær skuli fá fullt hús. Hann var stórkostlegur í sex marka sigri Gummersbach á heimavelli, 37:31, í leik gegn Eisenach á föstudaginn. Eyjamaðurinn skoraði 11 mörk í 12 skotum og átti einnig tvær stoðsendingar fyrir utan að vera allt í öllu í varnarleiknum sem löngum hefur verið hans helsta fag.

Eftir fimm sigurleiki í röð er Gummersbach komið upp í fimmta sæti þýsku 1. deildarinnar með 11 stig að loknum níu leikjum.